Vonskuveður er nú víða um land, með miklum vind og úrkomu. Mótsgestir á unglingalandsmóti UMFÍ lentu í vandræðum vegna veðursins en tjöld á tjald- og hátíðarsvæði mótsins voru komin á fremsta hlunn með að fjúka um koll. Björgunarsveitir voru því kallaðar út til að aðstoða við að tjóðra niður tjöld á svæðinu.
„Það eru mjög fá tjöld þarna því það er kolvitlaust veður. Björgunarsveitirnar hafa verið að aðstoða fólk við að hæla niður tjöld svo að þau fjúki ekki út í veður og vind," segir Magnús Hlynur Hreiðarsson fréttamaður sem er á svæðinu.
„Tjöld frá íþróttafélögunum hafa losnað og það er verið að tjóðra þau niður. Þetta eru ömurlegar aðstæður og ömurlegt veður til að vera að halda svona mót og það er ekkert sem minnir á að í dag sé 5. júlí. Þetta minnir miklu frekar á vont haustveður," bætir hann við.
Um 2000 keppendur taka þátt í mótinu. „Það eru fáir sem gista á tjaldsvæðinu vegna veðursins. Líkast til eru margir sem keyra á milli höfuðborgarsvæðisins og Selfoss í stað þess að gista í tjöldum," segir Magnús. „Það spáir slæmu veðri áfram um helgina, þó að sunnudagurinn verði bestur. Fyrir vikið er búið að flytja öll hátíðarhöld inn í íþróttahús Vallaskóla."
Vonskuveður víða um land
Magnús Hlynur Hreiðarsson og Jóhannes Stefánsson skrifar
