Innlent

Snowden-frumvarp lagt fram á Alþingi

Boði Logason skrifar
Þessir þingmenn vilja að Edward Snowden fái íslenskan ríkisborgararétt.
Þessir þingmenn vilja að Edward Snowden fái íslenskan ríkisborgararétt.
Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir og Jón Þór Ólafsson þingmenn Pírata, Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna, Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar framtíðar og Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden verði tafarlaust veittur íslenskur ríkisborgararéttur.

Ögmundur sagði þetta um stöðu Snowden á Alþingi fyrr í dag.

„Við erum að tala um stórpólitískt mál. Einstaklingur sem að hefur upplýst heimbyggðina um stórfelld mannréttindabrot, brot á persónuvernd og stjórnarskrá nánast allra landa, er að leita landvistar. Hann á hvergi höfði að halla," sagði Ögmundur á þingi í dag.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, sagði á á Alþingi í dag að nefndin hefði ekki fjallað um málið og vísaði til þess að hælisumsókn yrði að vera borin fram af einstaklingi sem væri staddur hér á landi auk þess sem upplýsingar skorti í málinu.

Helga Vala Helgadóttir, lögmaður, segir það hinsvegar alrangt því það sé „lögbundið að umsækjandi um leyfi til dvalar verði að sækja um áður en komið er. Sagt er líka að hann verði að vera hér áður en hann sækir um hæli. Það er ekki heldur rétt því fordæmi eru fyrir því að stjórnvöld hafi veitt fólki sem statt er utanlands hæli. Þá má sækja um hæli í sendiráðum Íslands erlendis sem og sækja um visa og sækja formlega um hæli við komuna. Vilji stjórnvalda er það eina sem þarf," segir Helga Vala á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×