Sport

Bolt: Ég er ekki á sterum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Usain Bolt, sprettharðasti maður heims, segir að hann sé „hreinn“ og að hann hafi aldrei notað ólögleg lyf. Tveir af helstu keppinautum hans í 100 m hlaupi karla féllu nýverið á lyfjaprófum.

Asafa Powell, sem er landi Bolt frá Jamaíku, féll á lyfjaprófi sem og Bandaríkjamaðurinn Tyson Gay sem á besta tíma ársins í greininni. Þeir missa því báðir af HM í Moskvu sem hefst í næsta mánuði.

Bolt keppir í Bretlandi síðar í vikunni og sagði þá að íþróttamenn verði að passa sig. „Það er heilmikið af efnum sem eru á bannlista,“ sagði Bolt.

„Ég fer margoft í lyfjapróf. Síðast í fyrradag. Þetta er bara hluti af rútínunni,“ sagði Bolt enn fremur. „Það er erfitt að fylgjast með þessu enda dagskráin ströng. En þess vegna er maður með starfslið í kringum sig sem sér um þessi mál.“

Alls hafa sjö af tíu hraðskreiðustu mönnum sögunnar fallið á lyfjaprófi en Bolt bendir á að hann hafi verið að slá met frá því að hann var táningur.

„Ég hef gert ótrúlega hluti síðan ég var fimmtán ára gamall. Ég var yngsti heimsmeistari nítján ára og yngri frá upphafi og átti heimsmetið sautján ára gamall. Ég hef slegið öll þau met sem eru til í þeim greinum sem ég hef keppt í.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×