Fótbolti

Sara Björk: Hann Sigurwin er nagli eins og við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir
Sara Björk Gunnarsdóttir Mynd / Daníel Rúnarsson
Sara Björk Gunnarsdóttir kom með þá hugmynd að setja Sigurwin, lukku-gullfisk íslenska kvennalandsliðsins, á grasið fyrir leik Íslands og Hollands á Myresjöhus Arena í Växjö á miðvikudaginn. Áhrifin leyndu sér ekki, frábær fyrri hálfleikur og glæsilegur sigur á Hollandi, sigur sem kom íslenska liðinu áfram í átta liða úrslit keppninnar.

„Mér fannst það góð hugmynd og ég fann það á mér að það væri happa. Þær sögðu allar: Nei Sara, við erum ekkert að fara setja hann í grasið. Ég sagði þá: Jú, jú, við setjum hann í grasið," lýsir Sara Björk Gunnarsdóttir atbuðarrásinni þegar stelpurnar stóðu saman í miðjuhringnum, nýmættar á völlinn fyrir Hollandsleikinn.

„Svo tók Guðný hann upp, henti honum í grasið og allar voru bara í sjokki. Við tókum hann strax upp og settum hann aftur í krukkuna. Þetta var bara happa. Hann lifði þetta af enda er hann ferskur hann Sigurwin. Hann er nagli eins og við," segir Sara brosandi.

„Það skemmir ekkert að hafa svona lukkudýr. Svíunum fannst það voðalega skrýtið að við værum með gullfisk í krukku og að við séum með hann í rútunni. Það hafa komið margar spurningar um hann," segir Sara.

„Það er bara gaman af þessu og við getum líka gert eitthvað grín úr þessu," segir Sara og strax eftir viðtalið gekk einn sænsku blaðamannanna til hennar og óskaði eftir því að fá að sjá Sigurwin. Já gullfiskurinn Sigurwin er orðin heimsfrægur, að minnsta kosti í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×