Innlent

Uppselt á Hátíð vonar - Þjóðkirkjan biðst afsökunar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Graham er meðal annars þekktur fyrir andstöðu sína gegn samkynhneigðum.
Graham er meðal annars þekktur fyrir andstöðu sína gegn samkynhneigðum.
Uppselt er á báðar samkomur predikarans Franklin Graham í Laugardalshöll, en hann kemur fram í september á Hátíð vonar, samstarfsverkefni kristinna samtaka, safnaða, sókna og kirkna, sjálfboðaliða og kristniboðssamtaka.

Graham er meðal annars þekktur fyrir andstöðu sína gegn samkynhneigðum, og pantaði fjöldi Íslendinga sér miða á samkomurnar í dag með það í huga að mæta ekki á þær. Ókeypis er á samkomurnar en miða verður að panta fyrirfram. 
Nú er hins vegar ljóst að allir miðar eru upppantaðir.

Þjóðkirkjan birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni í kvöld þar sem beðist er afsökunar á því að birt hafi verið tilkynning um hátíðina. Þjóðkirkjan stendur ekki að viðburðinum en fyrr í vikunni birtist tilkynning um hann á vefnum Kirkjan.is, sem nú hefur verið fjarlægð.

„Það var ekki ætlunin með birtingu hennar að varpa neinum skugga á Hinsegin daga eða taka undir orð Franklin Graham um samkynhneigða og hjónaband þeirra. Við biðjumst afsökunar á þessu. Um leið viljum við ítreka að þjóðkirkjan hvikar hvergi frá samstöðu sinni með samkynhneigðum, réttindabaráttu þeirra og hjónabandi samkynhneigðra,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×