Innlent

Bílstjóri í djúpum skít

Jakob Bjarnar skrifar
Svissneski rútubílstjórinn var gripinn glóðvolgur við að tæma úr kamri rútu sinnar fyrir þremur dögum.
Svissneski rútubílstjórinn var gripinn glóðvolgur við að tæma úr kamri rútu sinnar fyrir þremur dögum.
Bílstjóri svissneskrar rútu sem uppvís varð af því að losa úr skolptanki bifreiðarinnar í vegkanti við Selfoss þann 29. júlí síðastliðinn var yfirheyrður með aðstoð túlks í gær í síma. Lögreglan á Austurlandi þefaði hann uppi þar sem hann var staddur á Egilsstöðum. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að bílstjórinn hafi viðurkennt brot sitt og var honum boðið að ljúka málinu með því að gangast undir 150 þúsund króna sektargerð vegna brots á 18. gr. reglugerð um lögreglusamþykktir, að sögn lögreglu.

Málið komst í hámæli þegar Bylgjan og Vísir greindu frá málinu og liggur þannig fyrir að lögreglan hefur rakið slóð bílstjórans þvert yfir landið. Samkvæmt heimildum Vísis fóru heilbrigðiseftirlit Suðurlands, umhverfisstofnun og lögreglan á Selfossi þá af stað við rannsókn málsins. Bílstjórinn féllst á þessi málalok, það er að greiða sekt sem nemur 150 þúsundum króna og vildi taka sérstaklega fram hversu leitt honum þætti að þetta hafi gerst, um mistök hans hafi verið að ræða. Í Vísisfrétt í gær kom fram að hann hafi borið því við, þegar vegfarandi hlutaðist til um málið, að hann hefði ýtt á vitlausan takka, en viðmælandi Vísis taldi þá skýringu afar langsótta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×