Fótbolti

Mistök að láta Hallgrím spila frammi

Hallgrímur í baráttunni við Franck Ribery.
Hallgrímur í baráttunni við Franck Ribery.
Það vakti athygli að þjálfari danska liðsins SönderjyskE, Lars Söndergaard, skildi stilla landsliðsmanninum Hallgrími Jónassyni upp í fremstu víglínu um helgina. Hallgrímur er vanur því að leika á hinum enda vallarins.

Söndergaard viðurkenndi að það hafi verið mistök að láta Hallgrím spila frammi.

"Fyrir vikið vorum við of viðkvæmir í vörninni," sagði þjálfarinn en liðið tapaði 3-0 fyrir Viborg.

Faðir Hallgríms, Jónas Hallgrímsson, var frábær framherji á sínum tíma en sonurinn kann betur við sig í vörninni. Hann stóð samt fyrir sínu og átti skalla í slá.

"Maður er aldrei ánægður ef liðið skorar ekki. Ég var óheppinn er ég skallaði í slána. Leikurinn hefði getað breyst ef ég hefði skorað," sagði Hallgrímur sem hefur sýnt fjölhæfni sína í vikunni.

"Ég var með landsliðinu þar sem ég spilaði bakvörð og er því búinn að spila þrjár stöður á einni viku."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×