Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði eitt marka LdB Malmö í 5-0 stórsigri liðsins á útivelli á móti Kopparbergs/Göteborg í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. LdB Malmö er á miklu skriði eftir EM-fríið og hefur unnið alla þrjá leiki sína með markatölunni 12-2.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir voru að venju í byrjunarliði LdB Malmö og léku báðar allan leikinn. LdB Malmö náði þriggja stiga forskoti á Tyresö á toppnum með þessum sigri auk þess sem að liðið náði að bæta markatölu sína talsvert. Tyresö á leik inni á móti Örebro á miðvikudaginn.
Malmö-liðið skoraði fimm mörk framhjá sænska landsliðsmarkverðunum K. Hammarström en Kopparbergs/Göteborg er í 3. sæti deildarinnar og kemur því þetta stóra tap mjög á óvart.
Þýski Evrópumeistarinn Anja Mittag skoraði tvö fyrstu mörkin og lagði síðan upp það þriðja fyrir Manon Melis. Therese Sjögran skoraði fjórða markið og þannig var staðan í hálfleik.
Sara Björk skoraði fimmta markið á 70. mínútu eftir sendingu frá varamanninum Katrine Veje. Það reyndist vera síðasta mark leiksins.
Svíþjóð
Ísland