Sport

Aníta og Kolbeinn urðu bæði tvöfaldir Norðurlandameistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. Mynd/NordicPhotos/Getty
Aníta Hinriksdóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson urðu bæði Norðurlandameistarar annan daginn í röð þegar þau unnu 1500 metra hlaup kvenna og 200 metra hlaup karla á Norðurlandamóti 19 ára og yngri sem lauk fyrir skömmu í Espoo í Finnlandi.

Aníta Hinriksdóttir vann 800 metra hlaupið örugglega í gær og vann nokkuð sannfærandi í 1500 metra hlaupinu í dag. Hún kom í mark á 4:18,18 mínútum sem er hennar annar besti árangur í greininni.

 

Kolbeinn Höður Gunnarsson vann 200 m hlaupið á 21,45 sekúndum en það er einnig hans næst besti tími í greininni. Kolbeinn hljóp þessa grein hraðast á 21,38 sekúndum á EM í Rieti í sumar.

Íslenska kvennasveitin kom síðan önnur í mark í 4 x 400 metra boðhlaupi á 3:46,28 mínútum sem er nýtt Íslandsmet í flokki 18-19 ára stúlkna. Sveitina skipuðu þær: Arna Stefanía Guðmundsdóttir, Aníta Hinriksdóttir, Björg Gunnarsdóttir og Dóróthea Jóhannesdóttir. Þær eru allar úr ÍR og því er þetta einnig nýtt met félagsliða í greininni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×