Innlent

Foreldrar óska eftir skattarannsókn á leikskólann 101

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Þeir foreldrar sem fréttastofa ræddi við, setja spurningamerki við þann hátt stjórnenda að fara fram á, við hluta hópsins, að leikskólagjöld séu lögð inn á persónulegan reikning leiksskólastjórans, þrátt fyrir að skólinn hafi sína eigin kennitölu.

Vegna þessa fyrirkomulags fái foreldrar ekki kvittun með greiðslunni og þá eru ekki heldur gefnir út hefðbundnir greiðsluseðlar með gjöldunum á.

Ábendingin til skattrannsóknarstjóra er í skoðun en samkvæmt upplýsingum fréttastofu er rannsókn ekki hafin.

Þá höfðu lögfræðingur leikskólans og stjórnandi ekki heyrt af málinu og vildu því ekki tjá sig við fréttamann.

Guðrún Bergsteinsdóttir, lögfræðingur sérhæfir sig í skattarétti. Hún sagði í samtali við fréttastofu, að ef satt reyndist þá væru vinnubrögð leikskólans afar óeðlileg og ættu alls ekki að tíðkast.

Guðrún sagði jafnframt að fólk ætti alltaf að greiða inn á rekstur viðkomandi fyrirtækis, þess sem það skiptir við.

Mál leikskólans hefur verið í brennidepli undanfarið vegna rannsóknar á vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnum á skólanum. Þá voru tveir starfsmenn leystir tímabundið frá störfum vegna málsins.

Leikskólinn hefur verið lokaður síðan að málið kom upp en til stendur að opna hann að nýju á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×