Innlent

Engin leit fyrirhuguð á mönnunum níu frá Albaníu

Hjörtur Hjartarson skrifar
Engar áætlanir eru uppi um að hefja leit að þeim Albönum sem ekki skiluðu sér í leiguflug til heimalandsins í síðustu viku. Þeir mega vera á Íslandi í þrjá mánuði án þess að fá til þess sérstakt leyfi.

Þrettán stuðningsmenn albanska landsliðsins í knattspyrnu ákváðu að fara ekki aftur til Albaníu að leik Íslands og Albaníu loknum eins og fyrirhugað var. Fjórir þeirra hafa sótt um hæli hérlendis en ekki er vitað um ferðir níu þeirra. Útlendingastofnun á enn eftir að fá til sín skýrslurnar sem teknar voru af hælisleitendunum og þar með málin til umfjöllunar. Ekki fæst uppgefið á hvaða forsendum mennirnir sækja um hæli á Íslandi. Alls hafa 36 Albanir sótt um hæli hérlendis það sem af er ári og eru ástæðurnar af ýmsum toga.

Fimmtán af þessum 36 umsóknum hafa verið afgreiddar af Útlendingastofnun og var niðurstaðan sú sama í þeim öllum, beiðni um hæli var hafnað.

Eins og aðrir Evrópubúar mega Albanir vera á Íslandi í þrjá mánuði sem ferðamenn. Enginn af áðurnefndum níumenningum er því hérlendis ólöglega, ennþá. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á Höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við fréttastofu að ekki væri í bígerð að reyna hafa upp á þeim 9 einstaklingum sem urðu eftir og hafa ekki sótt um hæli. Stefán benti einnig á að þeir gætu nú þegar verið farnir úr landi, lögreglan fengi ekki sjálfkrafa upplýsingar um slíkt, ekki frekar en um aðra ferðamenn væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×