Erlent

Rússar handtóku meðlimi Greenpeace

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Meðlimir Greenpeace við olíuborpallinn í fyrradag.
Meðlimir Greenpeace við olíuborpallinn í fyrradag. Mynd/AFP
Vopnaðir rússneskir strandgæsluliðar réðust í gærkvöldi um borð í skip Greenpeace-samtakanna, Arcit Sunrise, sem var að hringsóla við olíuborpall á vegum Gazprom í suðaustanverðu Barentshafi.

Talsmenn Greenpeace segja að 29 meðlimir samtakanna séu nú í haldi Rússa, þar á meðal eru sex bretar að því er segir á vefsíðu BBC.

Rússar höfðu áður handtekið tvo Grænfriðunga sem klifruðu upp á síðu pallsins.

Hafði utanríkisráðuneyti Rússlands sent frá sér yfirlýsingu þar sem aðgerðum Greenpeace var lýst sem ögrandi og ógnandi, þær gætu haft alvarlegar afleiðingar og stefnt mannslífum í hættu.

Strandgæsluliðarnir létu sig síga um borð í skip Greenpeace úr þyrlum og tóku stjórnina.

Að sögn Greenpeace var áhöfninni síðan skipað að vera á hnjánum og vélbyssum miðað að þeim.

Talsmaður Greenpeace sagði svo harkalegar aðgerðir í engu samræmi við friðsamleg mótmæli samtakanna, en þau beinast gegn vaxandi olíuvinnslu á Norðurslóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×