Aðgerðunum virðist ætlað að þrýsta á leiðtoga Hamas-samtakanna að framlengja fyrsta fasa vopnahlés sem samþykkt var í janúar. Þeim fasa lauk fyrir rúmri viku síðan.
Umrætt vopnahlé var samþykkt þann 19. janúar og snerist fyrsti fasi þess um fangaskipti, samhliða því að viðræður um annan fasa áttu að hefjast. Sá fasi snýst um að binda enda á stríðið í skiptum fyrir alla gísla Hamas.
Sjá einnig: Stöðva allan vöruinnflutning inn á Gasa
AP fréttaveitan segir að ráðamenn í Ísrael krefjist þess að leiðtogar Hamas sleppi helmingi þeirra gísla sem samtökin halda í skiptum fyrir loforð um viðræður um varanlegt vopnahlé.
Leiðtogar Hamas krefjast þess að hefja viðræðurnar um annan fasa vopnahlésins. Talið er að Hamas-liðar haldi 24 gíslum og líkum 35 til viðbótar.
Sjá einnig: „Sleppið föngunum núna eða ykkar mun bíða helvíti“
Viðræður hafa átt sér stað í Katar og eiga frekari viðræður að fara fram í dag.
Mun minni og tímabundin framleiðsla
Átökin milli Ísraela og Hamas hafa komið verulega niður á íbúum Gasastrandarinnar en stórir hlutar svæðisins eru í rúst eftir umfangsmiklar loftárásir og annarskonar árásir Ísraela. Lengi hefur verið notast við ljósavélar í sjúkrahúsum og öðrum stofnunum.
Það hefur hinst vegar ekki verið hægt í áðurnefndri eimingarstöð, þar sem um átján þúsund rúmmetrar af sjó hafa verið eimaðir á dag. AP hefur eftir einum forsvarsmanna stöðvarinnar að með ljósavélum gæti framleiðslan verið um 2.500 rúmmetrar á dag.
Ísraelar hafa þó einnig stöðvað flæði eldsneytis inn á Gasaströndina og er ekki hægt að keyra ljósavélar án þess.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag hefur meðal annars sakað Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, um að beita hungri sem vopni.