Juan Mata er kominn í náðina hjá Jose Mourinho og var í byrjunarliði liðsins í 4-0 útisigri á Steaua Búkarest í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Þetta var nauðsynlegur sigur hjá Chelsea eftir tap á móti Basel í fyrsta leik.
„Chelsea þurfti á þessu að halda. Það var afar svekkjandi að tapa á móti Basel en í kvöld sýndum við það að við vildum vinna. Við spiluðum mjög vel og það dugði til sigurs," sagði Juan Mata við BBC eftir leikinn.
„Liðið færi sjálfstraust með svona sigri, það voru allir að spila virkilega vel og liðið var þétt og öruggt í sínum aðgerðum," sagði Mata sem fékk ekkert að spila framan af tímabilinu en frábær innkoma á móti Tottenham virðist hafa breytt því.
„Ég bara að halda áfram á þessari braut. Ég er að æfa vel og nú verð ég að halda áfram að gera mitt besta á hverri á æfingu sem og í hverjum leik," sagði Mata.
Fótbolti