Fótbolti

Karó­lína hóf árið á stoðsendingu

Sindri Sverrisson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gegnir stóru hlutverki í liði Leverkusen sem berst um þýska meistaratitilinn.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gegnir stóru hlutverki í liði Leverkusen sem berst um þýska meistaratitilinn. Getty/Inaki Esnaola

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og stöllur hennar í Leverkusen eru komnar aftur af stað í þýsku 1. deildinni í fótbolta eftir vetrarfrí frá því fyrir jól. Þær byrjuðu á góðum 2-1 útisigri gegn Freiburg.

Liðin sátu í 4. og 5. sæti deildarinnar fyrir leik en Leverkusen er núna með 29 stig og deilir efstu sætunum með Frankfurt og Bayern München. Freiburg situr eftir með 20 stig. Frankfurt og Leverkusen mætast í sannkölluðum stórleik næsta föstudag.

Leikmenn Leverkusen fagna fyrra marki sínu í dag.Getty/Daniela Porcelli

Karólína átti sinn þátt í sigrinum í dag en hún átti fyrirgjöfina þegar Selina Ostermeier kom Leverkusen yfir á 56. mínútu. Karólína fór svo af velli í kjölfarið en Leverkusen komst í 2-0 þegar Kristin Kögel skoraði á 70. mínútu.

Freiburg minnkaði muninn snemma í uppbótartíma, þegar Svenja Fölmli skoraði, en það dugði ekki til.

Van Dijk tryggði liði Amöndu þrjú stig

Í Hollandi var Amanda Andradóttir hvergi sjáanleg í leikmannahópi Twente sem vann hádramatískan sigur gegn Utrecht á útivelli, 2-1, og náði í mikilvæg stig í toppbaráttunni.

Utrecht komst yfir á 85. mínútu en í uppbótartíma skoraði Nikée van Dijk tvö mörk og tryggði Twente sigur.

Ekki liggur fyrir hvers vegna Amanda var ekki með í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×