Tillögur Jóns Gnarr borgarstjóra um aðgerðir til þess að útrýma kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg verða ræddar á fundi borgarstjórnar í dag.
Konur sem starfa hjá Reykjavíkurborg hafa stofnað viðburð á Facebook þar sem þær hvetja allar konur sem starfa hjá Reykjavíkurborg til að fjölmenna á pallana í dag. Þannig vilja þær þrýsta þrýsta á borgaryfirvöld að leiðrétta kynbundinn launamun hjá borginni.
Elfa Björk Ellertsdóttir er ein þeirra sem ætlar að mæta á pallana.
„Það er ósættanlegt að karl og kona sem beri sama starfsheiti hjá borginni séu ekki með sömu laun. Okkur finnst að Reykjavík eigi að fara fram með góðu fordæmi og leiðrétta launamun kynjanna. Við viljum bara hvetja allar konur sem starfa hjá Reykjavíkurborg að koma klukkan tvö og fylgjast með umræðum,“ segir Elfa.
Fundur borgarstjórnar fer fram í dag í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan 14-17.
Konur ætla að fjölmenna á pallana
Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
