Fótbolti

„Boxari sem stendur uppréttur eftir tíu lotur á alltaf möguleika“

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
Lars einbeittur á Ullevaal í kvöld.
Lars einbeittur á Ullevaal í kvöld. Mynd/Vilhelm
„Ég get ekki komið gleði minni í orð. Leikmenn og starfsfólk hafa lagt svo hart að sér. Þetta ár hefur verið frábært enda strákarnir bætt leik sinn stöðugt,“ sagði þjálfarinn Lars Lagerbäck.

Lagerbäck kom Svíum á hvert stórmótið á fætur öðru á síðasta áratug. Hvernig metur hann þetta afrek í því samhengi?

„Þetta afrek er sérstakt. Á ferðalögum mínum í kjölfar þess að ég tók að mér starfið voru allir sem ég hitti eitt stórt spurningamerki. Hvers vegna hafði ég tekið að mér starfið? Hvers vegna að hafa til Íslands. Þið eigið enga möguleika. Það gerir það ennþá yndislegra að eiga kost á tveimur leikjum í viðbót og geta komist til Brasilíu.“

Lagerbäck sagði að leikmenn og starfslið myndi njóta kvöldsins. Mikilvægt væri þó að allir áttuðu sig á því að þetta hafi ekki verið lokaskrefið.

„Það eru tvö þrep eftir. Þetta var aðeins tíunda lota. Hnefaleikakappi sem stendur enn uppréttur eftir tíundu lotu á enn möguleika,“ sagði sá sænski. Framundan er umspil í nóvember og segir Svíinn möguleikann í tveimur leikjum alltaf töluverðan.

„Hver sem andstæðingurinn verður þá verður hann erfiður. Við eigum þó möguleika þó erfitt sé að meta í prósentum hver hann er, 50 prósent, 30 prósent, 70 prósent,“ segir Lagerbäck. Liðið þurfi þó ekki að gefast upp gegn neinu liði. Þvert á móti.

„Við getum unnið hvaða lið sem er. Ég veit auðvitað ekki hver andstæðingurinn verður en við eigum alltaf möguleika.“

Svíinn hrósaði sérstaklega stuðningnum í Ósló.

„Mér skilst að aldrei hafi verið jafnmargir stuðningsmenn á útileik. Undir lokin hljómaði tromman og fólk söng „inn með boltann“. Auðvitað skiptir stuðningurinn miklu máli fyrir okkur, að fólki líki vel við landsliðið og styðji það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×