Fótbolti

Norska knattspyrnusambandið hótar TV 2 lögsókn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísland vann Noreg 2-0 í fyrri leiknum.
Ísland vann Noreg 2-0 í fyrri leiknum. Mynd/Vilhelm
Noregur og Ísland mætast í lokaleik sínum í undankeppni HM á Ullevaal-leikvanginum á þriðjudaginn kemur. Norska knattspyrnusambandið hefur brugðist hart við þeirri ákvörðun TV2 sjónvarpsstöðvarinnar að sýna leikinn á hliðarrás. Forráðamenn sambandsins hafa gengið svo langt að hóta sjónvarpstöðinni lögsókn.

TV2 er að frumsýna nýjan skemmtiþátt hjá sér þetta kvöld og hefur þess vegna fært landsleik Noregs og Íslands yfir á Zebra-sjónvarpsstöðina. Norska landsliðið hefur ekki staðið sig sérstaklega vel í undankeppninni og áhuginn á liðinu er minni en áður.

„Við höfum ekki breytt neinu í okkar dagskrá. Leikurinn verður sýndur á Zebra-stöðinni," sagði Björn Taalesen, yfirmaður TV2 í samtali við vefsíðu norska ríkissjónvarpsins.

„Við lítum á þetta sem brot á samningi ef að þeir ætla að sýna leikin á TV2 Zebra. Þeir geta ekki varið þessa ákvörðun sína með neinum alvöru rökum," sagði Svein Graff fjölmiðlafulltrúi norska sambandsins við Nrk.no.

TV2 mun líklega ekki færa leikinn nema af vera skyldi að Norðmenn vinna leik sinn í Slóveníu á morgun. Þá ætti norska landsliðið aftur alvöru möguleika á að tryggja sér sæti umspilinu með sigri á Íslandi.

Norska sambandið hefur þegar sett mikla pressu á forráðamenn TV2 og hóta þeim að fara með málið fyrir dómstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×