Fótbolti

Kolbeinn fer ekki til Zagreb

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn í leiknum á föstudaginn.
Kolbeinn í leiknum á föstudaginn. Mynd/Vilhelm
Kolbeinn Sigþórsson ferðast ekki með íslenska landsliðinu til Zagreb í dag og missir því af síðari leiknum gegn Króatíu í umspilinu fyrir sæti á HM 2014. KSÍ staðfesti þetta við Vísi í morgun.

Kolbeinn tognaði á ökkla og var borinn af velli undir lok fyrri hálfleiks þegar Ísland gerði markalaust jafntefli við Króatíu á Laugardalsvelli á föstudagskvöldið.

Hann hefur verið í meðhöndlun hjá læknateymi íslenska landsliðsins síðan þá en í morgun varð endanlega ljóst að Kolbeinn myndi ekki ná sér fyrir leikinn á þriðjudaginn. Var ákvörðunin tekin í fullu samráði við sjúkrateymi Ajax í Hollandi.

Í fyrstu var óttast að Kolbeinn hefði meiðst alvarlega en myndataka leiddi í ljós að hann væri óbrotinn. Enn er óvitað hvort liðbönd séu sködduð en strax myndaðist mikil bólga á ökklanum og er nú ljóst að Kolbeinn á engan möguleika á að ná sér fyrir leikinn á þriðjudag.

Kolbeinn mun halda utan til Hollands á næstu dögum og fer þá í segulómskoðun. Þá kemur væntanlega í ljós hvort hann eigi möguleika á að ná leik Ajax gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu eftir níu daga.

Íslenska landsliðið heldur utan síðdegis í beinu flugi til Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×