Fótbolti

Veðrið í dag var fullkomið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Ég held að það hafi byrjað að snjóa tveimur mínútum eftir að leiknum lauk,“ sagði Kristinn V. Jóhannsson, vallarstarfsmaður á Laugardalsvelli, eftir leikinn gegn Króatíu í kvöld.

Vallarstarfsmenn á Laugardalsvelli hafa staðið í ströngu síðustu daga og vikur til að undirbúa völlinn fyrir knattspyrnuleik á náttúrulegu grasi um miðjan íslenskan nóvembermánuð. Sérstakur búnaður var til að mynda pantaður frá Bretlandi til að hlífa vellinum.

Veðrið var mjög gott á meðan leiknum stóð, þó svo að það hafi verið kalt. Það var engin úrkoma og leikurinn gat því farið fram við eðlilegar aðstæður.

„Við áttum von á snjókomunni en að hún myndi koma fyrr. Við vorum með ráðstafanir tilbúnar en ég er mjög ánægður með hvernig þetta kom allt saman út. Þetta gat ekki orðið betra.“

„Við höfum upplifað margar veðurtegundir síðustu daga - og Bretarnir líka sem komu hingað með búnaðinn - en dagurinn í dag var í raun fullkominn í alla staði. Við eigum einhverja góða að uppi sem vildu að þessi leikur færi fram.“

Kristinn sagði völlinn í góðu ástandi eftir leikinn í kvöld en viðtalið má sjá í heild sinni á morgun. Hann sagði að íslenska landsliðið myndi æfa á vellinum á morgun en það gæti breyst ef það heldur áfram að snjóa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×