Innlent

Útisundlaug og vaðlaug fyrir börn við Sundhöllina

Kristján Hjálmarsson skrifar
Útlitsmynd af sundlaugarbakkanum.
Útlitsmynd af sundlaugarbakkanum.
Gert er ráð fyrir 25 metra langri útisundlaug, vaðlaug fyrir börn, nýjum heitum pottum og eimbaði við Sundhöll Reykjavíkur, samkvæmt verðlaunatillögu um viðbyggingu við Sundhöllina. Úrslitin voru kynnt í dag en VA Arkitektar þóttu eiga bestu tillöguna.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að byggðir verði nýir búningsklefar kvenna og búningsklefar karla verði stækkaðir. Gömlu klefarnir verða þó notaðir áfram.

Sundhöllin er byggð á árunum 1929 – 1937, hönnuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Hún er í fúnkisstíl með nýklassískum áhrifum. Í dómnefndarálitinu er bent á að samkeppnin marki að vissu leyti tímamót í íslenskri byggingarlistasögu þar sem í fyrsta skipti er boðað til hönnunarsamkeppni um viðbyggingu og breytingar á friðlýstu húsi.

„Það er grundvallaratriði að varðveisluverð hús hafi hlutverk og því er það misskilningur þegar því er haldið fram að engu megi breyta í friðlýstum húsum. Það er því mikilvægt að þau geti tekið breytingum, þó án þess að gildi þess sé rýrt með nokkrum hætti“, segir í álitinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×