Viðskipti innlent

Vitnaleiðslum í Al Thani málinu lokið

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Vikulöngum vitnaleiðslum í Al Thani málinu lauk fyrir hádegi í dag.
Vikulöngum vitnaleiðslum í Al Thani málinu lauk fyrir hádegi í dag. Mynd/GVA
Vitnaleiðslum í Al Thani málinu er lokið en síðasta vitnið gaf skýrslu fyrir hádegi  í dag. RÚV greinir frá.

Sérstakur saksóknari telur kaup Al Thani á rúmlega 5% hlut í bankanum hafa verið sýndarviðskipti þar sem Kaupþing lánaði fyrir kaupverðinu en sakborningarnir fjórir segja að um raunveruleg viðskipti hafi verið að ræða.

Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings og verðbréfasalarnir Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, báru vitni í dag, en þeir eru allir ákærðir í tug milljarða króna markaðsmisnotkunarmáli gegn níu starfsmönnum og stjórnendum Kaupþings en Birnir og Pétur nýttu sér rétt sinn til að svara ekki spurningum í skýrslugjöfinni sem tengst gætu því máli.

Einar Pálmi sagðist hafa haldið að maður eins og Al Thani myndi staðgreiða kaupin og margir hafi orðið fyrir vonbrigðum þegar þeir komust að því hvernig kaupin voru fjármögnuð.

Björn Knútsson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Kaupþingi í Lúxemborg bar einnig vitni en hann er einn fárra sem segjast hafa hitt Al Thani. Það mun hafa verið á skrifstofu Ólafs Ólafssonar í Lundúnum þar sem Al Thani hafi verið að opna reikning í Kaupþingi í Lúxemborg.

Lýður Guðmundsson, sem var varaformaður stjórnar Kaupþins, bar vitni símleiðis, þar sem hann er erlendis. Hann sagði viðskiptin hafa verið frábær fyrir Kaupþing.

Saksóknari og verjendur munu flytja málflutningsræður sínar á miðvikudag og fimmtudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×