Menning

Epal færir Listasafni Reykjavíkur stóla eftir Arne Jacobsen

Bjarki Ármannsson skrifar
Jón Gnarr og Eyjólfur Pálsson (l.t.h.) við afhendinguna í gær.
Jón Gnarr og Eyjólfur Pálsson (l.t.h.) við afhendinguna í gær. Listasafn Reykjavíkur
Húsgagnaverslunin Epal færði í gær Listasafni Reykjavíkur 25 stóla eftir danska hönnuðinn Arne Jacobsen. Stólarnir eru af gerðinni Sjöan, en sú lína kom fyrst á markað árið 1955. Stólarnir eru viðbót við 80 stóla sömu gerðar sem er að finna í safninu. 

„Listasafn Reykjavíkur er með í sölum sínum fjölda gæðastóla eftir Arne Jacobsen sem keyptir voru til safnsins á sínum tíma en þörf hefur verið fyrir fleiri stóla.  Með þessari gjöf vil ég gera safninu mögulegt að bæta við stólum sömu gerðar og uppfylla ströngustu skilyrði um góða hönnun, sem safnið væri annars ekki í stöðu til að gera,“ segir Eyjólfur Pálsson, stofnandi Epal.

„Reykjavíkurborg þakkar fyrir þessa höfðinglegu gjöf en hún sýnir þann góða hug sem Epal ber til safnsins. Eyjólfur Pálsson hefur allt frá upphafi lagt sig fram um að auka skilning og virðingu Íslendinga fyrir góðri hönnun. Þessir stólar, sem við tökum nú við, sóma sér afar vel innan um önnur verðmæti sem safnið geymir,“ segir Jón Gnarr, borgarstjóri, sem tók við gjöfinni fyrir hönd safnsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×