Fótbolti

Nasistakveðjan eftir Íslandsleikinn dýrkeypt - Simunic missir af HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josip Simunic.
Josip Simunic. Mynd/AFP
Króatíski landsliðsmaðurinn Josip Simunic fagnaði vel þegar króatíska landsliðið sló Ísland út úr umspili um laust sæti á HM í Brasilíu en fagnaðarlæti hans eftir urðu honum afdrifarík.

FIFA dæmdi Josip Simunic í dag í tíu leikja bann fyrir hegðun sína eftir leikinn. Simunic, var dæmdur sekur um að nota fræga nasistakveðju til þess að gleðjast yfir sigrinum á Íslandi þegar hann fagnaði með hörðustu stuðningsmönnum króatíska liðsins.

Josip Simunic tók meðal annars upp hljóðnema eftir leikinn og kallaði til stuðningsmannanna: „Fyrir ættjörðina." Stuðningsmennirnir svöruðu á móti: „Tilbúnir."

Þetta er fræg kveðja frá dögum Ustase-hreyfingarinnar sem var Nasistahreyfing sem réði ríkjum í seinni heimsstyrjöldinni þegar þúsundir gyðinga, Serba og aðrir létust í útrýmingarbúðum í Króatíu. Simunic neitaði sök en FIFA sleppti honum ekki.

FIFA leit þetta mjög alvarlegum augum enda er sambandið í herferð gegn kynþáttformdómum af öllum gerðum og þetta var því jafnvel enn strangari dómur fyrir vikið. Dómurinn þýðir að þessi 35 ára gamli varnarmaður verður ekki með á HM í Brasilíu næsta sumar.

Simunic missir ekki aðeins af HM heldur þarf hann að greiða 20.700 evrur í sekt sem gera um 3,3 milljónir íslenskra króna.

Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×