Fótbolti

Sneijder skaut Juventus út úr Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wesley Sneijder og Didier Drogba fagna markinu.
Wesley Sneijder og Didier Drogba fagna markinu. Nordicphotos/AFP
Tyrkneska liðið Galatasaray tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar með því að vinna 1-0 sigur á Juventus í dag í leik sem þurfti að fresta í gær vegna snjókomu í Istanbul.

Ítölsku meisturunum í Juventus nægði jafntefli til þess að tryggja sér annað sætið í riðlinum en þurfa nú að sætta sig við að taka þátt í Evrópudeildinni eftir áramót. Leiknum var hætt eftir 31 mínútu í gær en í dag fóru fram síðustu 59 mínúturnar.

Það var hollenski landsliðsmaðurinn Wesley Sneijder sem skoraði sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok eftir að hafa fengið skallasendingu frá Didier Drogba. Didier Drogba fagnaði gríðarlega í leikslok enda sýndi hann enn á ný hversu mikill sigurvegari hann er.

Real Madrid vann riðilinn með miklum yfirburðum og hlaut níu stigum meira en Galatasaray. Stigin sjö sem Galatasaray náði sá hinsvegar til þess að knattspyrnustjórinn Roberto Mancini slapp við að sitja eftir í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þriðja árið í röð. Mancini náði ekki að fara með Manchester City upp úr riðlakeppninni undanfarin tvö tímabil.

Leikurinn fór fram við skelfilegar aðstæður á Turk Telekom Arena í Istanbul en völlurinn var nánast eins og eitt drullusvað og leikmenn áttu í miklum erfiðleikum með að rekja boltann. 

Nordicphotos/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×