Innlent

Þróa dróna fyrir leitarstörf

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sprotafyrirtækið SAReye hefur þróað hugbúnað fyrir dróna sem greinir loftmyndir og vinnur úr þeim. Stofnendur fyrirtækisins segja að hugbúnaðurinn geti nýst við leit að týndu fólki.

„Þetta kom til þegar tveir menn með sitthvort áhugasviðið, annars vegar björgunarsveitastörf og hins vegar ómönnuð flygildi, voru að ræða um leit og björgun og sáu tækifæri í að bæta við ákveðnu lagi inn í björgunarflóruna,“ segir Guðbrandur Örn Arnarson, viðskiptafræðingur og einn af stofnendum SAReye. Aðrir stofnendur eru þeir Björn Geir Leifsson, Hjörtur Geir Björnsson og Skúli Freyr Hinriksson. Hjörtur Geir og Skúli Freyr tóku í ár þátt í nýsköpunarkeppninni Gullegginu og unnu hana. Búnaðurinn er nú að sögn Guðbrands tilbúinn til notkunar.   

„Menn hafa verið að nota þyrlur og fisflugvélar við leit og leit úr lofti er mjög öflug. Hún er hins vegar óheyrilega dýr. Klukkutími í þyrlu kostar hvítuna úr augunum. Fis og flygildi eru miklu betri kostur að því leytinu til að þau eru ódýr og það er mjög fljótlegt að koma þeim í gang. En þægilegast er að vera með búnað sem hægt er að henda upp í loft án fyrirvara. Og með þessum flygildum og hugbúnaði er það hægt. Nú bíðum við bara eftir fyrstu leit sem myndi henta við að prófa búnaðinn,“ segir Guðbrandur.

Aðalframleiðsluvara SAReye er hins vegar aðgerðastjórnunarkerfi sem Slysavarnafélagið Landsbjörg keypti nýverið.

„Þar má fylgjast með og skrá allar aðgerðir íslenskra björgunarsveita um allt land og er þessi hugbúnaður að hjálpa mikið til við framkvæmd björgunaraðgerða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×