Menning

Heldri krataleiðtogi segir frá

Jakob Bjarnar skrifar
Björgvin á miklu barnaláni að fagna. Hér er hann ásamt fjórum af sex sonum sínum í útgáfuteitinu.
Björgvin á miklu barnaláni að fagna. Hér er hann ásamt fjórum af sex sonum sínum í útgáfuteitinu.
Björgvin Guðmundsson man tímana tvenna. Hann er nú 81 árs og ólst upp á kreppuárum þriðja áratugar síðustu aldar, þegar hrammur atvinnuleysis og fátæktar lá yfir íslensku þjóðlífi. Björgvin varð einn helsti leiðtogi Alþýðuflokksins í Reykjavík og tók þátt í að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni árið 1978, nokkuð sem virtist óhugsandi eftir áratuga valdaskeið flokksins í Reykjavík. Í ævisögunni „Efst á baugi“ lítur Björgvin yfir farinn veg.

Björgvin var ekki bara stjórnmálamaður, hann starfaði um árabil í fjölmiðlum, einkum Alþýðublaðinu, að sjálfsögðu og varð seinna embættismaður í utanríkisráðuneytinu.

„Mér er minnistæðast á mínum pólitíska ferli þegar meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík féll eftir hálfrar aldar valdatíð. Þetta kom íhaldinu alveg á óvart og raunar kom þetta okkur öllum á óvart. Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið mikið hræddari um meirihlutann í kosningunum 1970. Þetta voru að sjálfsögðu mikil pólitísk tíðindi,sem höfðu áhrif á landsmálin einnig. Og í rauninni var þetta mikið meiri frétt en sigur R-listans seinna. Við ruddum brautina.“

Þau felldu Sjálfstæðisflokkinn 1978. Björgvin og Sjöfn Sigurbjörnsdóttir skipuðu efstu sætin á lista Alþýðuflokksins, þegar vinstriflokkarnir unnu sögulegan sigur á Sjálfstæðisflokknum.
Björgvin man tímana tvenna og þrenna:

„Í upphafi bókarinnar rek ég ástandið eins og það var, þegar ég var að alast upp í byrjun heimhreppunnar,atvinnuleysið og fátæktina, sem ég bjó við. Ég varð jafnaðarmaður vegna þess misréttis og ójafnaðar,sem ríkti og ég vildi breyta ástandinu. Sem ungur alþýðupiltur var ég mikill hugsjónamaður og hafði brennandi trú á jafnaðarstefnunni. Að sjálfsögðu hefur jafnaðarstefnan breyst frá því hún kom fyrst fram. Leiðirnar að markinu hafa breytst en markmiðið er ávallt það sama: Frelsi,jafnrétti og bræðralag.“

Björgvin hefur verið mikill fjölskyldumaður. Eiginkona hans er Dagrún Þorvaldsdóttir en þau hafa verið  gift í 60 ár, áttu demantsbrúðkaup fyrir nokkrum dögum. Þau eiga  6 syni. Björgvin segist glaður og hrærður yfir þeim móttökum sem bók hans hefur fengið:

„Ég var að lesa upp  í Sunnlenska bókakaffinu hjá Bjarna Harðarsyni á fimmtudaginn og þá sagði hann, að bók mín hefði fengið góðar viðtökur þar og selst vel. Í útgáfuteitinu, sem Sögur útgáfa, efndi til í bókaverslun Eymundsson á Skólavörðustíg, þegar bókin kom út, var húsfyllir og ég hafði vart undan að árita bækur sem seldust  við það tækifæri. Ég las upp úr bókinni í útgáfuteitinu og hefi lesið upp úr henni á nokkrum öðrum stöðum síðan, svo sem hjá Félagi eldri borgara og á Jólagleði jafnaðarmanna og hefi fengið góðar undirtektir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×