Sport

Tebow kominn með nýja vinnu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Tim Tebow hefur störf í sjónvarpi innan skamms en hefur þó ekki gefið upp alla von um að komast aftur að í NFL-deildinni.

Hinn trúrækni Tebow spilaði ekkert á tímabilinu eftir að hann komst ekki í liðið hjá New England Patriots í haust. Þar áður var hann á mála hjá Denver Broncos og New York Jets.

Tebow er einn þekktasti bandaríski íþróttamaður undanfarin ár. Hann náði frábærum árangri í háskólaboltanum á sínum tíma og hóf svo ferilinn í NFL-deildinni með því að fara lengra með Denver en nokkur átti von á.

Hann fékk hins vegar lítið að spila hjá Jets og virtist ekkert lið hafa áhuga á að gefa honum tækifæri í ár.

Tebow hefur verið ráðinn til SEC-sjónvarpsstöðvarinnar sem hefur útsendingar í ágúst næstkomandi. Þar verður hann sérfræðingur um háskólaboltann sem er gríðarlega vinsæll í Bandaríkjunum.

„Ég hef ekki gefist upp á draumi mínum um að spila sem leikstjórnandi í NFL-deildinni. En þetta er frábært tækifæri fyrir mig að fá að starfa í kringum háskólaboltann á þennan hátt,“ sagði Tebow í yfirlýsingu í dag.

SEC-sjónvarpsstöðin verður undir hatti ESPN-íþróttarisans í Bandaríkjunum og mun Tebow hefja strax störf sem sérfræðingur um háskólaboltann á öðrum rásum ESPN.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×