Lífið

Nammisala ekki minnkað í meistaramánuði

Sara McMahon skrifar
Helgi Vilhjálmsson, eigandi Sælgætisgerðarinnar Góu.
Helgi Vilhjálmsson, eigandi Sælgætisgerðarinnar Góu. Fréttablaðið/Arnþór Birkisson
„Við höfum ekki orðið vör við það, salan hefur aukist ef eitthvað er. Þeir eru nokkuð seigir í nammiátinu Íslendingarnir, enda er þetta svo gott nammi, það má ekki gleyma því,“ segir Helgi Vilhjálmsson, eigandi Sælgætisgerðarinnar Góu. Ekki hefur borið á að minna sé keypt af sælgæti þennan mánuðinn þrátt fyrir meistaramánuð.

Heilsuátakið meistaramánuður er nú hálfnað en þátttakendur í átakinu einsetja sér að borða hollt, hreyfa sig og neyta ekki áfengis á meðan á því stendur. Óli Þorbjörnsson, vaktstjóri á Hamborgarabúllu Tómasar, tekur undir með Helga og segir að sala á hamborgurum hafi ekki dalað þrátt fyrir meistaramánuð.

„Fólk er enn jafn sólgið í borgara,“ segir hann.

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct hefur þó aðra sögu að segja:„Það kemur alltaf sölukippur í lok sumars og um áramót, þegar fólk strengir áramótaheit. En svo varð annar sölukippur í lok septembermánaðar sem við teljum að megi rekja beint til meistaramánaðar. Við seldum mikið af æfingafötum, hlaupaskóm og svo sérhæfðu æfingadóti á borð við boxhanska, tennisspaða og badmintonspaða,“ segir Sigurður Pálmi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.