Viðskipti innlent

Fasteignir á Íslandi metnar á 4.956 milljarða

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 4,3% frá yfirstandandi ári og verður 4.956 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2014 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag.

Á vefsíðu Þjóðskrár segir að nýtt fasteignamat miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2013 og byggist á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum.

Mat 125.700 íbúðaeigna á öllu landinu hækkar um 4,3% frá árinu 2013 og verður samanlagt fasteignamat þeirra 3.263 milljarðar króna í fasteignamatinu 2014. Matið hækkar á 86,9% eigna en lækkar á 13,1% eigna frá fyrra ári.

Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matsverð íbúða í fjölbýli meira en mat íbúða í sérbýli en utan höfuðborgarsvæðisins er þessu öfugt farið. Þar hækkar fasteignamat sérbýlis meira en mat fjölbýlis.

Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman leiguverð úr öllum þinglýstum leigusamningum íbúðarhúsnæðis frá ársbyrjun 2011 og birt upplýsingar um verð og vísitölubreytingar frá ársbyrjun 2012. Frá ársbyrjun 2011 hefur leiguverð íbúðarhúsnæðis hækkað meira en kaupverð. Þannig hækkaði vísitala kaupverðs á höfuðborgarsvæðinu um 16% en vísitala leiguverðs hækkaði um 21,5% frá janúar 2011 til maí 2013. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×