Þetta er samkvæmt heimildum Vísis. Halldór Guðmundssonbar við trúnaði þegar fréttastofa spurði hann út í málið: „„Við látum ekkert uppi um okkar gesti. En við leggjum áherslu á að það fari vel um þá.“
Margrét Þórhildur óskaði sérstaklega erftir því að fá að skoða Hörpu en að hönnun byggingarinnar komu meðal annararra danskir arkítektar. Þá þekkir hún vel til Ólafs Elíassonar, hins dansk-íslenska listamanns sem hannaði glerhjúp hússins. Sjálf er drottningin listamaður og hefur meðal annars hannað kufla á biskupa Danmerkur og leikmyndir í fjölmörgum sýningum Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn. Sem og haldið málverkasýningar.
Hennar hátign er með þekktari reykingarmönnum í heiminum. Hún er sögð reykja sérstaka tegund franskra sígaretta, sem seldar eru í tóbaksbúð á Strikinu og mun drottning sjálf gera sér reglulega ferðir þangað til að byrgja sig upp. Reyndar fer tvennum sögum af reykingum drottningar, eins og sjá má hér. Hún hefur verið gagnrýnd af sumum landa sinna fyrir að reykja opinberlega en hún hefur lýst því yfir að hún reyki einungis þar sem eru öskubakkar. Og það var einmitt þar sem Halldór Guðmundsson, sem greinilega þekkir vel til siða hirðarinnar, kom til skjalanna og sá til þess að drottning þjáðist hvergi af nikótínskorti. Víst má telja að drottning gleymi seint þessu vinabragði af hálfu forstjóra Hörpu.
Annað mun hafa verið uppi á teningum í kvöldverðarboði forseta Íslands sem haldið var drottningu til heiðurs á þriðjudagskvöld, þann sama dag og drottning kom til landsins. Þar mun hvergi hafa verið öskubakka að sjá. Margrét Þórhildur hefur því ekki getað fullkomnað kvöldmáltíðina með franskri sígarettu og leiða má að því líkum, í ljósi þessa, að hún hafi orðið þeirri stundu fegnust þegar veislu lauk.

Vísi hefur borist fjölda ábendinga varðandi reykingar Margrétar Þórhildar Danadrottningar og meðal annars sendi Ingþór Ingólfsson, grafískur hönnuður, Vísi meðfylgjandi mynd sem hann teiknaði þegar hann frétti að til stæði að hennar hátign myndi sitja kvöldverðarboð forsetans.