Innlent

35 ár liðin frá mannskæðasta flugslysi íslenskrar flugsögu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Átta Íslendingar af þrettán um borð fórust í slysinu.
Átta Íslendingar af þrettán um borð fórust í slysinu.
Í dag eru 35 ár liðin frá því að Leifur Eiríksson, DC-8 þota Flugleiða, fórst í aðflugi við Katunayake-flugvöll í Kólombó, Sri Lanka. Um er að ræða mannskæðasta flugslys íslenskrar flugsögu, en 183 fórust, þar af átta íslenskir starfsmenn Flugleiða.

Vélin var á leið frá Sádi-Arabíu með indónesíska pílagríma á leið til síns heima, en millilenda átti í Kólombó þar sem aukaáhöfn og starfsmenn áttu að verða eftir. Í afleitu veðri og skyggni brotlenti vélin á kókoshnetuplantekru skömmu fyrir miðnætti, rúmum tveimur kílómetrum frá enda flugbrautarinnar.

Sjónarvottar sögðust hafa heyrt kraftmikla sprengingu um leið og vélin rifnaði í þrjá hluta, þegar hún féll til jarðar. Bjarni Ólafsson flugvirki stóð úti á flugvellinum og lýsir hann því sem fyrir augu bar í bókinni Útkall: Leifur Eiríksson brotlendir, eftir Óttar Sveinsson.

„Ég sá þegar vélin var um það bil að koma niður til jarðar, var að fara að lenda. Ljósin á henni hurfu andartak, en svo fór um mig angistarhrollur: Allt í einu sá ég bjarma af miklum eldblossa.“

Frá björgunaraðgerðum á Sri Lanka.
„Hélt ég myndi brenna lifandi“

79 komust lífs af frá slysinu, þar af fimm Íslendingar. Þeir voru flugfreyjurnar Jónína Sigmarsdóttir, Kristín E. Kristleifsdóttir, Oddný Björgólfsdóttir og Þuríður Vilhjálmsdóttir, og Harald Snæhólm flugstjóri. Harald flaug sem farþegi og sat aftast í eldhúsi flugvélarinnar. Hann rifjar upp atvikið.

„Ég slasaðist mikið. Ég man að lungun lögðust saman, bakið fjórbrotnaði og hausinn á mér var allur skorinn í sundur,“ segir hann í viðtali við Fréttablaðið sem birt verður á morgun. „Stélið fór niður og það kom mikill hvellur. Svo rankaði ég ekki við mér fyrr en 100 til 200 metra frá flugvélinni með stórt pálmatré yfir brjóstinu á mér og ég gat ekki hreyft mig, var alveg pikkfastur. Vélin sprakk og ég hélt ég myndi brenna lifandi.“

Forsíða Vísis 16. nóvember 1978.
Áhöfn Dagfinns Stefánssonar flugstjóra beið vélarinnar á flugvellinum, en hún átti að taka við henni og flytja pílagrímana áfram til Indónesíu. Hópurinn sat í farþegasal flugvallarins þegar maður kom til þeirra og flutti þeim tíðindin.

„Hann horfði á okkur öll og sagði: „Your plane was crashing!,“ segir Lilja Sigurðardóttir í fyrrnefndri bók Óttars Sveinssonar, en hún var meðlimur áhafnarinnar. „Við horfðum bara öll á hann steini lostin og göptum. „No, no, no,“ sögðum við. „Það getur ekki verið!““

Íslendingarnir fimm sem komust lífs af voru fluttir á sjúkrahús í Kólombó og reyndist enginn þeirra lífshættulega slasaður.

Þjóðin harmi slegin

Haukur Hervinsson var flugstjóri vélarinnar og á meðal þeirra sem létust í slysinu. Dóttir hans, Ásta B. Hauksdóttir, var fimmtán ára þegar slysið varð. „Ég man að presturinn kom heim morguninn eftir klukkan sjö og bankaði upp á með hempuna og hringdi dyrabjöllunni,“ segir Ásta í samtali við Fréttablaðið.

„Ég er fimmtug í dag og er ennþá að glíma við þetta. Ég hef unnið með sjálfa mig en maður er fullorðin kona í dag og þetta „markerar“ mann alveg fyrir lífstíð.“

Að kvöldi 19. nóvember lenti Boeing 727-þota Flugleiða með lík sjö af þeim átta Íslendingum sem fórust í slysinu. Fjöldi einkennisklæddra starfmanna Flugleiða stóð heiðurvörð við móttökuathöfnina og lúðrasveit spilaði á meðan líkkistunum var raðað fyrir framan vélina. Þjóðin var harmi slegin.

Sólfaxi, vél Flugleiða, kom að kvöldi 19. nóvember 1978 með lík sjö af þeim átta Íslendingum sem fórust.
Rannsóknin gagnrýnd

Rannsókn flugmálayfirvalda á Sri Lanka var gagnrýnd af Flugmálastjórn Íslands, en niðurstaða rannsóknarinnar var sú að gáleysi flugmannanna hefði verið helsti orsakavaldur slyssins.

Hópur íslenskra rannsóknarmanna sem sendur var utan komst að annarri niðurstöðu og taldi ýmislegt athugavert við flugstjórnar- og aðflugstæki flugvallarins. Fulltrúar annarra flugfélaga voru á sama máli og gefin var út rannsóknarskýrsla í samráði við bandaríska sérfræðinga sem stangaðist verulega á við niðurstöður fyrri rannsóknarinnar.

Var niðurstaða þessarar nýju rannsóknar sú að meginorsakir slyssins hafi verið skortur á viðhaldi aðflugstækja og að áhöfn vélarinnar hafi fengið rangar upplýsingar frá flugturni. Þá var veðrið talið hafa spilað sinn þátt, en mikil rigning var þegar slysið varð, vindur og niðurstreymi.

Maðkur í mysunni

Íslenski rannsóknarhópurinn mætti mörgum hindrunum við rannsókn sína og taldi að um yfirhylmingu yfirvalda á Sri Lanka væri að ræða. Flugmálastjórinn var bróðir samgönguráðherrans, sem er sagður hafa staðið tæpt í embætti.

Skúli Jón Sigurðsson, fyrrverandi deildarstjóri flugrekstrar- og rannsóknardeildar Flugmálastjórnar Íslands, á lokaorðin í bók Óttars Sveinssonar um slysið, en hún er tileinkuð minningu Íslendinganna átta og þeirra 175 Indónesa sem fórust.

„Flugmennirnir komu þarna grunlausir og treystu aðflugstækjum flugvallarins eins og þeir voru þjálfaðir til að gera. Rangar leiðbeiningar flugumferðarstjórans féllu saman við gölluð og hættuleg aðflugstækin. [...] Það gerði þetta svo enn verra að þarna voru maðkar í mysunni, svo ekki sé meira sagt, hjá yfirvöldum á Sri Lanka og nánast fyrirfram ákveðið að þarna skyldi hylmt yfir - þarna átti ekki að leiða allan sannleikann í ljós. En nú hefur það loksins verið gert.“

Nánar verður fjallað um slysið í helgarblaði Fréttablaðsins á morgun.

Leifur Eiríksson (TF-FLA) í lágflugi yfir Reykjavíkurflugvelli. Vélin er merkt Loftleiðum en Flugleiðir sáu um sameiginlegan rekstur félagsins og Flugfélags Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×