Innlent

Sjóræningjarnir eru komnir: Umdeildasta skráarskiptasíða veraldar orðin íslensk

Stærsta skráarskiptasíða veraldar, og jafnframt sú umdeildasta, thePiratebay, er orðin íslensk. Þetta kemur meðal annars fram á erlendum fréttasíðum sem fjalla um tölvur og tæknimál, auk þess að ef slegin er inn vefslóðin, má sjá glögglega að núna er piratebay ekki lengur með endinguna se, eins og undanfarin ár, heldur is.

Síðan er vægast sagt umdeild en tilgangur hennar er að miðla kvikmyndum, tónlist og fleiru án þess að hugað sé að höfundarlögum. Eigendur Pirate Bay voru dæmdir í ársfangelsi árið 2009 vegna síðunnar í Svíþjóð.

Þeir voru jafnframt dæmdir til þess að greiða 30 milljónir sænskra króna, eða 450 milljónir íslenskra króna, í skaðabætur. Útgefendur kvikmynda, tónlistar og tölvuleikja höfðu krafist 120 milljóna sænskra króna, eða 1800 milljóna íslenskra króna, í skaðabætur.

Þegar dómurinn féll sendi SMÁÍS - Samtök myndrétthafa á Íslandi- frá sér tilkynningu þar sem niðurstöðu dómsins var fagnað.

Heimasíðan varð svo kveikjan að Pírataflokknum sem nú býður fram í fyrsta skiptið hér á landi. Ekki náðist í forsvarsmenn ISNIC sem útdeila íslenskum lénum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×