Erlent

Börnin í Newtown syngja til þeirra sem eiga um sárt að binda

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Grunnskólabörn í Sandy Hook grunnskólanum í Newtown í Connecticut hafa gefið út lag í góðgerðaskyni. Þau vonast til þess að lagið hjálpi þeim sem eiga um sárt að binda eftir skotárásina 15. desember þar sem 20 grunnskólabörn létu lífið.



„Over the Rainbow" er lagið sem varð fyrir valinu en lagið var upphaflega skrifað fyrir kvikmyndina Galdrakarlinn í Oz árið 1939.



„Þegar ég syng lagið líður mér eins og hún sé hjá mér, sitji við hlið mér og syngi með," segir Kayla Verga sem syngur í minningu sex ára vinkonu sinnar Jessica Rekos.



„Mig langar svo mikið að sýna góðmennsku í garð fólksins sem missti ástvini sína og hjálpa þeim að takast á við sorg sína," sagði hin tíu ára Jane Shearin.



Að því er fram kemur í innslagi Good Morning America á sjónvarpsstöðinni ABC höfðu börnin sjálf frumkvæði að verkefninu. Chris Frantz úr hljómsveitinni Talking Heads kom að framleiðslu lagsins og Ingrid Michaelson syngur með börnunum.



Hægt er að nálgast lagið í heild sinni á vef Amazon og Itunes. Allur ágóði fer til góðgerðasamtakanna United Way of Western Connecticut og Newtown Youth Academy.



Hægt er að sjá innslagið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×