Innlent

Forstjóri LSH fagnar boðaðri landssöfnun

Agnes Sigurðardóttir
Agnes Sigurðardóttir
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, fagnar því að kirkjan vilji leiða landssöfnun til tækjakaupa á spítalanum. Agnes M. Sigurðardóttur biskup boðaði slíka söfnun í nýárspredikun sinni í Dómkirkjunni í gær.

„Undanfarið hefur verið vegið að öryggi landsmanna í heilbrigðismálum, bæði hér í höfuðborginni og eins úti um landið. Á eina háskólasjúkrahúsi landsins, þar sem einkunnarorðin eru umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun, er tækjakostur það bágborinn og úr sér genginn að til vandræða er,“ sagði Agnes.

„Það er nauðsynlegt að finna leiðir til úrbóta því öll viljum við búa við öryggi á hvaða aldri sem við erum og hvar sem við búum. Landspítali er fyrir okkur öll sem búum í þessu landi,? bætti hún við. Það væri Þjóðkirkjan líka.

„Þess vegna vill kirkjan taka þeirri áskorun að vera leiðandi í söfnun til tækjakaupa á Landspítalanum í samráði við stjórnendur spítalans. Samtakamáttur þjóðarinnar hefur einatt skilað miklum árangri.“

„Við höfum ekki rætt þetta, en ég var búinn að heyra óm af þessu frá kirkjunnar mönnum,“ segir Björn Zoëga. „Auðvitað líst okkur alltaf vel á það þegar svona stórt og sterkt afl vill styðja við starfsemina því að það er engin launung að við höfum að miklu leyti þurft að styðjast við gjafir við endurnýjun á vissum tækjum.“

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×