Menning

Staðarstolt er uppáhaldsorðið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það var vissulega allt í kaldakoli fjárhagslega hjá félaginu og þá eru viss tækifæri í að hugsa hluti upp á nýtt, það er alltaf viðspyrna á botninum,“ segir Ragnheiður.
"Það var vissulega allt í kaldakoli fjárhagslega hjá félaginu og þá eru viss tækifæri í að hugsa hluti upp á nýtt, það er alltaf viðspyrna á botninum,“ segir Ragnheiður. Mynd/Auðunn
Ég held ég kveiki bara á kertum fyrst það er byrjað að snjóa,“ segir Ragnheiður Skúladóttir, leikhússtjóri á Akureyri, meðan við komum okkur fyrir á skrifstofu hennar í hinu virðulega Samkomuhúsi. Hún hafði komið röltandi heiman frá sér eftir hádegismatinn, enda býr hún steinsnar frá, ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Jónssyni, leikskáldi, þýðanda og dramatúrg. „Við fluttum hingað í fyrrasumar og duttum niður á góða íbúð til sölu hér rétt hjá,“ upplýsir hún og bætir við. „Ég er hér fyrir norðan flestum stundum en Bjarni er meira á flakkinu.“

Ragnheiður var ráðin til Leikfélags Akureyrar í mars 2012 sem listrænn ráðunautur og frá síðustu áramótum sem leikhússtjóri. Vitað var að fjárhagur félagsins væri þröngur, varð hún ekki að hleypa í sig kjarki til að sækja um? „Ég þurfti nú bara eina ferð hingað norður til að sannfærast um að þetta væri eitthvað sem væri vert að takast á við og stend alveg við það. Er að verða nógu gömul til að fylgja innsæinu og trúi því að ég hafi valið rétt. Það var vissulega allt í kaldakoli fjárhagslega hjá félaginu og þá eru viss tækifæri í að hugsa hluti upp á nýtt, það er alltaf viðspyrna á botninum.“

Hefur gengið vel? „Já og nei. Svo það sé sagt þá hefur þetta verið töff. Ég ætti eiginlega að hafa áletrað hér yfir dyrunum: Góðir hlutir gerast hægt. Eins og hjá öðrum fyrirtækjum tekur tíma fyrir félagið að byggja sig upp. Við höfum þurft að sníða okkur stakk eftir vexti sem skilar sér meðal annars í löngun til samvinnu bæði við aðrar menningarstofnanir og listamenn. Frá því ég kom hingað norður höfum við opnað glugga og dyr og sagt: Hér erum við, endilega hafið samband.“

Djásnið í krúnunni

Í Samkomuhúsinu er 210 manna salur. „Leikurum finnst salurinn yndislegur því nálægðin er svo mikil við áhorfendur og hljómburður er mjög góður,“ segir Ragnheiður og lýsir líka Rýminu, litlu sviði sem líkist svörtum kassa og er í húsi skammt frá. „Í Rýminu starfrækjum við það sem við köllum djásnið í krúnu okkar – Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar sem María Sigurðardóttir, forveri minn í starfi, stofnaði 2009. Við erum með 77 nemendur þar á þessari önn í 3. til 10. bekk. Sumir hafa verið með frá byrjun. Þetta er hellings starfsemi sem ég tók við með mikilli gleði.“ Ragnheiður segir leiklistarskólann miða að frumsköpun því nemendur geri allt sjálfir. „Þetta er eini skólinn á landinu sem er tengdur atvinnuleikhúsi, þannig að við erum með uppeldisstöð. Tvær stúlkur úr skólanum leika til dæmis í verkinu Sek eftir Hrafnhildi Hagalín sem við erum með á fjölunum núna.“

Önnur skrautfjöður í starfsemi Leikfélags Akureyrar er vinnustofur fyrir listamenn. Þangað sækir fólk bæði hérlendis og erlendis frá. „Ég hugsaði þegar ég kom hingað, ókei, við erum með litla peninga til að setja upp sýningar en hvað fleira getum við gert til að nýta þá góðu aðstöðu sem hér er? Þá komum við á laggirnar þessum vinnustofum. Einu reglurnar eru þær að listafólkið tengist bænum á einhvern hátt og það kynni sín verkefni í lokin. Hingað til hefur starfsemin verið bundin við sviðslistir en það á eftir að breytast.“

Gullna hliðið afmælissýning

Leikfélag Akureyrar á 40 ára afmæli sem atvinnuleikhús og á þessu leikári fara ellefu sýningar þar á fjalirnar, sumar eru gestasýningar. Fjögur íslensk verk eru flutt af leikfélagsfólki. Það er Sek eftir Hrafnhildi Hagalín sem búið er að frumsýna, Söngur hrafnanna, nýtt verk eftir ungt leikskáld, Árna Kristjánsson, sem leikfélagið setur upp í samvinnu við Útvarpsleikhúsið. Það fjallar um Davíð Stefánsson skáld en þann 1. mars 2014 verða 50 ár frá andláti hans og verkið verður frumflutt í Davíðshúsi.

Svo er frumsamið verk fyrir krakka, frá fjögurra ára aldri eftir leikhóp hússins. Það byggir á eyfirskum þjóð- og draugasögum. Afmælissýningin er svo Gullna hliðið. Egill Heiðar Anton Pálsson setur það upp. „Egill Heiðar setti upp Leigumorðingjann hjá okkur í fyrra. Hann er nýráðinn prófessor við Ernst Buch-háskólann í Berlín, mjög fær leikstjóri sem er eftirsóttur víða,“ segir Ragnheiður ánægjulega.

Heyrst hefur að flestir leikararnir á sviði Samkomuhússins séu að sunnan. Hvað segir Ragnheiður um það?

„Það er aldrei hægt að gera öllum til geðs, það er alveg á hreinu. Í fyrra var fastráðin hjá LA Anna Gunndís Guðmundsdóttir sem er héðan og steig sín fyrstu skref á sviði í Samkomuhúsinu, fór svo suður og menntaði sig og kom aftur. Hún er reyndar farin í meistaranám í kvikmyndaleikstjórn til New York. Þráinn Karlsson er á sviðinu í Sek. Saga Jónsdóttir og Sunna Borg verða í Lísu og Lísu, sem er nýtt verk eftir ungt, írskt leikskáld. Jón Gunnar sem er starfandi hér, leikstýrir því verki. María Pálsdóttir, sem er ættuð héðan, er verkefnaráðin við Gullna hliðið. Svo ég held það halli ekkert á heimamenn í vetur. Mér er umhugað um að við séum í uppbyggingarstarfi því við erum á ríkisframlögum og í mínum huga berum við vissa ábyrgð þar af leiðandi, sem felst ekki bara í því að setja upp kassastykki heldur að huga að þróun þessarar listgreinar sem leiklistin er. Það er alltaf gott að hleypa heimdraganum. Ég þekki það sjálf. Hins vegar eru það aðstæðurnar í heimahögunum sem ráða því hvort fólk vill koma þangað aftur. Hér verðum við að gera eitthvað sem dregur fólk að, bæði þátttakendur og ferðamenn. Talandi um þetta heyrði ég á leiðarþingi Eyþings um daginn orðið staðarstolt. Það lýsir í einu orði því sem ég vil standa fyrir.“

Ofurmenntuð leikkona

Sjálf bjó Ragnheiður í Bandaríkjunum í 13 ár, frá 21 árs aldri. Þá ákvað hún að sækja um nýja stöðu deildarforseta leiklistadeildar í Listaháskóla Íslands, fékk hana, skildi sitt ameríska líf eftir og flutti heim á viku árið 2000. Þar tók hún yfir leikaranámið og stofnaði svo með sínu samstarfsfólki braut sem heitir Fræði og framkvæmd ásamt dansbraut. „Þetta var spennandi verkefni fyrir 34 ára konu að taka við á sínum tíma,“ rifjar hún upp. „Hins vegar finnst mér að fólk eigi ekki að vera of lengi í sama stjórnunarstarfinu, það er hvorki hollt fyrir stofnunina né persónuna.“

Varstu í námi í Bandaríkjunum. „Já, ég er með bæði BA-gráðu og meistaragráðu í leiklist. Þannig að ég er ofurmenntuð leikkona og leik ekki neitt, nema nú er ég að leika leikstjóra Leikfélags Akureyrar. Maður tekur að sér ýmis hlutverk í lífinu!“ svarar hún hlæjandi. Eftir BA-nám í Iowa City með áherslu á leikarann og þriggja ára meistaranám í Minneapolis kveðst hún hafa flutt til New York og leikið þar og kennt í fjögur ár eftir útskrift. „Í prógramminu í Minnesota fékk ég tækifæri til að kenna BA-nemendum, sem meistaranemi. Þá fann ég kennarann í mér!“ segir hún glaðlega.

Fann Bjarna hjá Útvarpinu

Ragnheiður stofnaði, ásamt Bjarna manni sínum og Guðrúnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, leiklistarhátíðina Lókal árið 2008. „Við vorum að ljúka 6. hátíðinni nú í lok ágúst. Lókal er okkar barn og er í okkar örmum,“ lýsir hún. En skyldi Leikfélag Akureyrar hafa stuðning af Bjarna manni hennar? „Það er ekkert sem hann hefur tekjur af. En þegar hjón eru í sama fagi og mjög náin er óhjákvæmilegt að það sé alls konar stuðningur innifalinn í því.“ Þegar forvitnast er um hvar hún hafi fundið Bjarna svarar hún. „Ég held ég hafi ekki verið búin að vera á Íslandi nema nokkra mánuði þegar við hittumst á fundi hjá Útvarpsleikhúsinu. Hann var að vinna þar.“

Bjarni á tvo syni sem búa fyrir sunnan. „Það er mikilvægt að eiga íbúð í Reykjavík sem við höfum sem miðstöð þegar við erum þar. Ég fer reglulega í bæinn, bæði til að funda og fara á sýningar. Það hefur hist þannig á að ég hef ekki verið á frumsýningum og finnst það ágætt, ég er búin að stunda frumsýningar síðustu árin. Nú tökum við tarnir og sjáum nokkrar sýningar um helgi. Svo fer ég líka talsvert til útlanda og sé sýningar þar. Það er nauðsynlegt að hafa yfirsýn. Þegar starfið er líka áhugamál þá blandast þetta ágætlega saman.“

Gjöf að koma norður

Leikhússókn Íslendinga er með eindæmum að mati Ragnheiðar. Hún nefnir að auk Leikfélags Akureyrar séu í Eyjafirði tvö öflug áhugaleikfélög, Freyvangsleikhúsið og Leikfélag Hörgdæla. „Það sem mér fannst merkilegt við að koma hingað var þessi sterka félagastarfsemi, ótal félög, klúbbar og kórar svo eitthvað sé nefnt. Norðurland á sinfóníuhljómsveit og svo er þessi blómlega myndlistarsena. Mér finnst það stundum gleymast hversu mikil atvinnustarfsemi er í menningu og listum utan höfuðborgarsvæðisins. Ég sé þetta sem Reykvíkingur og ég lít á það sem gjöf að hafa fengið að koma hingað norður og skipta um sjónarhorn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×