Menning

Ætlar ekki að leggja leiklistina á hilluna

Sara McMahon skrifar
Leikkonan Anna Gunndís Guðmundsdóttir flytur til New York í ágúst og hefur nám í leikstjórn við NYU.
Leikkonan Anna Gunndís Guðmundsdóttir flytur til New York í ágúst og hefur nám í leikstjórn við NYU. Fréttablaðið/Stefán
„Ég er fjórði Íslendingurinn sem kemst inn og þar af önnur konan. Umsóknarferlið tók marga mánuði og ég sendi meðal annars inn hugmyndir að myndum í fullri lengd, samtöl, hugmynd af stuttmynd og vídeó,“ segir leikkonan Anna Gunndís Guðmundsdóttir sem komst nýverið inn í Tisch School of the Arts við New York University þar sem hún mun læra kvikmyndagerð með áherslu á leikstjórn næstu þrjú árin.

Af áttahundruð umsækjendum voru hundrað boðaðir í viðtal og fór viðtal Önnu Gunndísar fram á samskiptaforritinu Skype. „Ég var með þrjár frumsýningar á skömmum tíma og komst alls ekki út í viðtalið. Ég talaði því við þau í gegnum Skype,“ segir Anna Gunndís, en hún starfar sem leikkona hjá Leikfélagi Akureyrar.

Anna Gunndís flytur út í byrjun ágúst og kveðst hlakka mikið til enda sé borgin hreint ótrúleg. „Ég var í New York í þrjár vikur um jólin og þetta er alveg ótrúleg borg. Ég hlakka mikið til þess að koma þangað yfir sumartímann því það var skítkalt þegar ég var þarna síðast,“ segir hún og hlær. Eiginmaður hennar og samstarfsfélagi, leikarinn Einar Aðalsteinsson, mun svo flytja út í haust. „Hann ætlar að koma aðeins seinna og vonandi fær hann einhverja vinnu í kjölfarið.“

Spurð hvort hún ætli að snúa sér alfarið að leikstjórn að náminu loknu svarar Anna Gunndís neitandi. „Ég var spurð að því sama í viðtalinu og þá sagði ég nei. Maður getur vel gert bæði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.