Innlent

Nemendur í djammferðir á strippstaði

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Þeir fara á þessa strippstaði og kaupa sér drykki og sumir ganga jafnvel svo langt að kaupa sér dans,“ segir Baldvin sem segir að svo sé sagt að þetta sé allt í gríni.
"Þeir fara á þessa strippstaði og kaupa sér drykki og sumir ganga jafnvel svo langt að kaupa sér dans,“ segir Baldvin sem segir að svo sé sagt að þetta sé allt í gríni. mynd/365
Stúdentablaðið hætti við birta viðtal við viðskiptafræðinema í Háskóla Íslands þar sem meðal annars var rætt um árlegar ferðir þeirra á nektardansstaði.

Baldvin Þormóðsson, blaðamaður hjá Stúdentablaðinu, segist hafa rætt við tvo viðskiptafræðinema um þessar ferðir. Þeir eru  báðir meðlimir í Tradition sem er sérstök skemmtinefnd fyrir viðskiptafræðinema í Háskóla Íslands. Viðtalið hafi verið tilbúið og blaðið á leið í prentun þegar félagar í Tradition óskuðu eftir því að viðtalið yrði ekki birt.

Þar sem ekki hafi gefist tími til þess að endurskrifa greinina eða hugsa málið nánar hafi verið ákveðið að verða við bón þeirra og því var hætt við birtingu viðtalsins. Baldvini hafi þó eftir þetta liðið eins og hann væri þátttakandi í einhverskonar þöggun.

Tilefni viðtals Baldvins við viðskiptafræðinemana var að ræða þessar ferðir sem tíðkast hafa um eitthvert skeið. Viðskiptafræðingar sem fréttastofa hefur rætt við kannast við að hafa farið í slíkar ferðir á meðan þeir voru í námi í Háskóla Íslands. Um er að ræða árlegt karla- og kvennakvöld þar sem bæði kynin koma saman. Í lok kvölds fara strákarnir svo á nektardansstaði og karlkyns strippari mætir til að skemmta stelpunum.

Lýsa angist í augum kvennanna

„Þeir fara á þessa strippstaði og kaupa sér drykki og sumir ganga jafnvel svo langt að kaupa sér dans,“ segir Baldvin sem segir að svo sé sagt að þetta sé allt í gríni.

„Það skiptir engu máli hvort menn eru að fara þarna inn af alvöru eða í gríni, þeir eru að eyða pening þarna og þannig styrkja þeir starfsemina,“ segir Baldvin.

„Það eru algeng rök með svona staði að fólk sem þar starfi geri það af fúsum og frjálsum vilja. En línan á milli þess að gera eitthvað af fúsum og frjálsum vilja og að neyðast til að gera eitthvað getur þó verið mjög þunn,“ segir Baldvin.

Baldvin segir þá sem hann ræddi við hafa lýst því hvernig þeir hafi séð angistina í augum kvennanna. Þeir ættu því að átta sig á alvöru málsins.

„Samfélagið hefur orðið fyrir vitundarvakningu, sérstaklega eftir umræðurnar í sumar um þessa staði og loksins er verið að loka þessum stöðum. Samt eru svona gæjar að halda svona kvöld og rosa stemning fyrir því,“ segir Baldvin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×