Menning

Skipsflautur opna Listahátíð

Sigríður Björg Tómasdóttir skrifar
Konurnar á bak við Listahátíð; Steinunn Þórhallsdóttir kynningarstjóri, Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi, og Auður Rán Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Listahátíðar. Fréttablaðið/GVA
Konurnar á bak við Listahátíð; Steinunn Þórhallsdóttir kynningarstjóri, Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi, og Auður Rán Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Listahátíðar. Fréttablaðið/GVA
Listahátíð í Reykjavík verður sett með nýju verki á miðbakka Reykjavíkur föstudaginn 17. maí.

Fluttur verður skipsflautukonsertinn Vessel Orchestra eftir Lilju Birgisdóttur. Þá er blásið í skipslúðra skipanna í Reykjavíkurhöfn eftir fyrirmælum höfundarins, sem verður búinn talstöð og mun stjórna flotanum í verki sem vart mun fara fram hjá fólki í nágrenninu.

Lokatriði hátíðarinnar verður einnig tónverk, en af allt öðrum toga. Það er skrifað fyrir Eldborg og önnur hljóðfæri ekki notuð við flutning þess. Það eru Ilan Volkov og Hlynur Aðils Vilmarsson eru höfundar verksins sem verður flutt af kanópíunni, stóru smíðisvirki yfir sviði Eldborgar sem má færa upp og niður til að breyta hljómburði í salnum.

Þess á milli verða margvísleg atriði sem spanna vítt svið lista; tónleikar, myndlistarsýningar, gjörningar og dans.

„Áhersla Listahátíðar í Reykjavík í ár er á hið skapandi rými þar sem listgreinarnar mætast; á tilurð nýrra verka og endurgerð eldri verka, á nýsköpun, en einnig á söguna sem uppsprettu andagiftar," sagði Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, við kynningu hennar í Sólheimasafni í gærdag en Hanna segir styrkleika Listahátíðar meðal annars felast í fjölbreytninni. Sú fjölbreytni birtist meðal annars „í óvenjulegum fjölda listamanna, innlendra og erlendra, sem taka þátt í eða eiga verk á hátíðinni, en einnig í áherslu hátíðarinnar á margbreytilega upplifun áhorfandans."

Þess má geta að hátt á sjötta hundrað listamenn taka þátt í Listahátíð í Reykjavík í ár, frá um þrjátíu löndum.

Sýningarstaðir eru margir, meðal annars Harpa, Norræna húsið, Listasafn Íslands og Hafnarborg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×