Fótbolti

Ari Freyr samdi við OB

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða OB
Ari Freyr Skúlason hefur gengið frá þriggja ára samningi við danska úrvalsdeildarfélagið OB. Hann mun þó klára tímabilið í Svíþjóð.

Þetta kom fram á heimasíðu OB í dag en Ari Freyr kemur þó ekki til liðsins fyrr en um næstu áramót, er samningur hans við sænska B-deildarliðið GIF Sundsvall rennur út.

Jesper Hansen, yfirmaður íþróttamála hjá OB, segir að félagið hefði viljað fá Ara nú strax í sumar en það hafi ekki reynst mögulegt.

Ari Freyr spilaði með Heerenveen í Hollandi og eftir stutt stopp hjá Val árið 2006 samdi hann við sænska liðið Häcken. Þaðan fór hann til Sundsvall árið 2008.

Hann spilar fyrst og fremst sem varnartengiliður hjá Sundsvall en er fenginn til OB sem vinstri bakvörður - sem er sú staða sem hann hefur gegnt í íslenska landsliðinu í síðustu leikjum.

„Ég er þó fyrst og fremst leikmaður sem hleypur mikið og berst til síðasta blóðdropa,“ sagði Ari í viðtali við heimasíðu OB. „Ég er orkumikill leikmaður og með góðan vinstri fót. Ég þekki líka til danska boltans og veit að OB er gott félag með ríka sögu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×