Innlent

Börn hlaupa sífellt hægar

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Börn þurfa að reyna á sig í að minnsta kosti eina klukkustund á dag samtals.
Börn þurfa að reyna á sig í að minnsta kosti eina klukkustund á dag samtals.
Börn hlaupa ekki jafnhratt og foreldrar þeirra gerðu þegar þeir voru börn. Þetta eru niðurstöður nýrrar umfangsmikillar rannsóknar sem kynntar voru á ársfundi samtakanna American Heart Association. Á vef BBC segir að vísindamenn hafi skoðað gögn sem náðu yfir 46 ára tímabil. Voru gögnin um rúmlega 25 milljónir barna í 28 löndum.

Rannsóknin leiddi í ljós að börn í dag eru að meðaltali 90 sekúndum lengur að hlaupa 1,6 km en börn sem hlupu sömu vegalengd fyrir 30 árum. Þetta á við bæði stúlkur og drengi á aldrinum níu til 17 ára.

Telja vísindamenn að offita sé skýringin í 30% til 60% tilfellanna. Vandinn er einkum á Vesturlöndum en hans verður einnig vart í sumum Asíulöndum, eins og til dæmis Suður-Kóreu, Kína og Hong Kong.

Haft er eftir stjórnanda rannsóknarinnar, dr. Grant Tomkinson, að afleiðingarnar fyrir þau börn sem hlaupa hægar en foreldrar þeirra gerðu fyrir 30 árum geti orðið alvarlegar þegar þau verða fullorðin. Hættan á að þau fái hjartasjúkdóma síðar á ævinni verði meiri.

Sérfræðingar segja að börn og unglingar eigi að hreyfa sig í að minnsta kosti eina klukkustund á dag samtals þannig að verulega reyni á líkamann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×