Innlent

Grísir skulu vera deyfðir við geldingar

Ólína Þorvarðardóttir og Einar K. Guðfinnsson
Ólína Þorvarðardóttir og Einar K. Guðfinnsson
Bundið verður í lög að dýr séu skyni gæddar verur og eigi að vera laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta, þjáningu, sársauka, meiðsl og sjúkdóma. Frumvarp um velferð dýra var samþykkt til þriðju umræðu á Alþingi.

Nokkur umræða fór fram á milli Ólínu Þorvarðardóttur, varaformanns atvinnuveganefndar, og Einars K. Guðfinnssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um geldingar grísa. Meirihluti nefndarinnar hafði gert þá breytingartillögu við frumvarp ráðherra að fella út heimild til að gelda grísi, yngri en vikugamla, án deyfingar.

Einar og Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafa hins vegar lagt það til að sú heimild verði veitt og því leyft að gelda grísina án deyfingar, fyrstu viku lífs þeirra.

Ólína sagði að ekki ætti að leyfast að gelda nokkur dýr án deyfingar og minnti á að lögin lytu að velferð dýra, ekki búfjárháttum. „Hefur háttvirtur þingmaður einhvern tíma heyrt hljóðin í stungnum grís?"

Einar sagði hins vegar rök fyrir því að leyfa deyfingarlausa geldingu svo ungra grísa, en svínabændur hafa lagt það til, og þvertók fyrir að unnið væri gegn velferð dýra.

„Háttvirtur þingmaður á ekkert að vera að gera mér upp þá skoðun að ég sé að tala fyrir einhverju dýraplageríi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×