Erlent

Angelina lætur fjarlægja bæði brjóst sín

Jakob Bjarnar skrifar
Angelina Jolie. Aðgerðin og eftirmeðferðin tók þrjá mánuði.
Angelina Jolie. Aðgerðin og eftirmeðferðin tók þrjá mánuði.
Leikkonan Angelina Jolie tilkynnti í morgun að ótti hennar við krabbamein hafi leitt hana til þeirrar niðurstöðu að rétt væri að láta fjarlægja bæði brjóst sín.

Þetta er fyrirbyggjandi aðgerð. Móðir Angelinu lést vegna brjóstakrabbameins og er leikkonan með sama genamengi, eða BRCA1, sem eykur líkur á brjóstakrabbameini til muna.

Angelina, sem skrifaði um málið í New York Times, sagði þessa staðreynd hafa ráðið úrslitum. Hún vildi minnka áhættuna og fór því skurðaðgerðina.

„Móðir mín barðist við krabbamein í tæp tíu ár og dó 56 ára. Læknarnir mínir áætluðu að það væru 87 prósent líkur á því að ég fengi brjóstakrabbamein og 50 prósent líkur á því að ég fengi eggjastokkakrabbamein,“ skrifar Angelina í pistlinum.

„Ég skrifa um þessa reynslu mína til að miðla því til annarra kvenna að þrátt fyrir að sú ákvörðun að láta fjarlægja brjóstin hafi ekki verið auðveld er ég afskaplega hamingjusöm með hana. Hættan á því að ég fái brjóstakrabbamein fór úr 87 prósentum í 5 prósent. Nú get ég sagt börnunum mínum að þau þurfi ekki að óttast það að ég fái brjóstakrabbamein.“

Aðgerðin, og eftirmeðferðin, tók þrjá mánuði alls og lauk henni í apríl. Angelina lætur fylgja þakkir til tilvonandi eiginmanns síns, Brad Pitt, fyrir stuðninginn en hann var við hlið hennar í öllum aðgerðum síðastliðna mánuði.


Tengdar fréttir

Brad Pitt lítur á Angelinu sem hetju

"Þetta er mikill gleðidagur fyrir fjölskylduna. Það eina sem ég vil er að hún lifi löngu og heilbrigðu lífi með mér og börnunum okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×