Stjórn blakdeildar Aftureldingar hefur tekið þá ákvörðun að vísa einum leikmanna karlaliðsins úr félaginu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórninni.
Umræddur leikmaður kýldi dómara í viðureign Mosfellinga gegn Stjörnunni í Mikasa-deild karla í gærkvöldi. Dómarinn missti andann en jafnaði sig svo. Var leikmanninum vísað af velli eins og greint var frá á Vísi í gærkvöldi.
Stjórn blakdeildar hefur haft samband við dómarann og beðið hann afsökunar. Þá hefur leikmanninum verið tilkynnt um að honum hafi verið vísað úr félaginu. Blaksamband Íslands sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem ofbeldi gegn dómurum var sagt ólíðandi.
Yfirlýsingin í heild sinni
Stjórn blakdeildar Aftureldingar harmar þá uppákomu sem varð í gær í leik Aftureldingar og Stjörnunnar.
Haft var samband við dómara leiksins í gær þar sem stjórn deildarinnar bað hann afsökunar vegna atviksins.
Ofbeldi er ekki liðið í neinu formi innan deildarinnar eða félagsins og hefur stjórn deildarinnar tekið þá ákvörðun að vísa leikmanninum úr félaginu og hefur honum verið tilkynnt um þessa ákvörðun.
Okkur þykir þó rétt að það komi fram að samkvæmt myndbandsupptöku hafði bolti aldrei viðkomu í höfði dómarans eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.
Afturelding mun vinna með blaksambandinu vegna þessa máls.
Ákváðu að vísa blakspilaranum úr félaginu

Tengdar fréttir

Leikmaður Aftureldingar kýldi dómarann
Upp úr sauð í viðureign Aftureldingar og Stjörnunnar í Mikasa-deild karla í blaki í kvöld. Tveir úr liði Mosfellinga voru sendir í sturtu. Annar fyrir að slá dómarann.

Segja ofbeldi gagnvart dómurum ólíðandi
Stjórn Blaksambands Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna uppákomu í viðureign Aftureldingar og Stjörnunnar í gærkvöldi. Leikmaður Mosfellinga kýldi dómara leiksins.