Innlent

Vonbrigði á Tálknafirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Borinn Nasi frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða á borstað í Tálknafirði.
Borinn Nasi frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða á borstað í Tálknafirði. Mynd/Egill Aðalsteinsson.
Borun eftir heitu vatni við Tálknafjörð hefur verið hætt án þess að tilætlaður árangur næðist.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við vorum algjörlega sannfærð um að við myndum finna þarna gnægð af heitu vatni," sagði Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðar, í samtali við fréttastofu 365.

Hreppsnefndin ákvað á fundi í gærkvöldi, að tillögu Hauks Jóhannessonar jarðfræðings, að láta staðar numið en borinn var þá kominn niður á 1.400 metra dýpi. Góður hiti reyndist í holunni, um 70 gráður, en nánast ekkert heitt vatn kom upp, eða aðeins um tveir sekúndulítrar.

Holan var boruð skammt frá Stóra-Laugardal, um fimm kílómetrum vestan við þorpið. Þar er heit laug og önnur borhola, sem þegar gefur um 40 sekúndulítra af 38 stiga heitu vatni. Það nýtist til að kynda sundlaug Tálknafjarðar og grunnskólann á Sveinseyri.

Vonast hafði verið til að með borun fyndist nægt vatn til viðbótar til að leggja hitaveitu í öll hús þorpsins. Eyrún segir að nú verði skoðað hvort heita vatnið, sem þegar sé til staðar, geti dugað með varmaskiptum í hitaveitu. Sú hola sé metin upp á 1,5 megvött og eitt megavatt gæti nægt til að kynda þorpið.


Tengdar fréttir

Þorpið þyrstir í fréttir af bormönnum

Allra augu á Tálknafirði mæna þessa dagana á þrjá bormenn sem þar bora eftir heitu vatni. Þeir eru komnir niður á það dýpi þar sem heitavatnsæðin átti að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×