Fótbolti

Liðsmenn Milan gengu af velli vegna kynþáttafordóma | Myndband

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kevin-Prince Boateng
Kevin-Prince Boateng Nordicphotos/Getty
Æfingaleikur AC Milan og Pro Patria, sem leikur í fjórðu efstu deild á Ítalíu, varði í aðeins 26 mínútur. Þá fékk Kevin-Prince Boateng, leikmaður Milan, nóg af kynþáttaníð stuðningsmanna heimaliðsins.

Boateng, sem leikur með landsliði Gana, tók boltann upp á 26. mínútu og skaut honum í átt að stuðningsmönnum Pro Patria í stúkunni. Han reif sig í kjölfarið úr treyju sinni og gekk útaf vellinum á hinum enda hans.

Myndband af atvikinu má sjá hér.

Liðsfélagar Milan fylgdu í kjölfarið og skipti engum toga þótt leikmenn heimaliðsins reyndu að malda í móinn og telja stjörnur gestaliðsins af ákvörðun sinni. Auk Boateng er talið að Urby Emanuelson, Sulley Muntari og M'Baye Niang hafi orðið fyrir kynþáttafordómum af hálfu stuðningsmanna Pro Patria.

Boateng tjáði sig um atvikið á Twitter-síðu sinni í dag.

„Það er leitt að svona hlutir eigi sér enn stað," og bætti við: „Stöðvum rasisma fyrir fullt og allt."

Massimiliano Allegri, þjálfari Mílanóliðsins, sagði í viðtali við Gazzetta dello Sport að ákvörðun leikmanna sinna hefði átt rétt á sér.

„Ég er vonsvikinn og dapur en ég held að það hafi verið rétt ákvörðun að snúa ekki aftur út á völlinn af virðingu við leikmenn okkar og aðra þeldökka leikmenn," sagði Allegri.

Massimo Ambrosini, fyrirliði AC Milan, bað aðra áhorfendur en þá sem illa létu afsökunar.

„Við lofum að snúa aftur (og spila leikinn) og biðjum félagið og leikmenn Pro Patria afsökunar. Við gátum hins vegar ekkert annað gert," sagði Ambrosini. Bað hann einnig fjölskyldur og börn sem ætluðu að gera sér glaðan dag afsökunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×