Jupp Heynckes, stjóri Bayern München, heyrði af tilboði forráðamanna félagsins um áframhaldandi störf fyrst í gegnum fjölmiðla.
Heynckes mun láta af störfum sem stjóri liðsins í sumar en Pep Guardiola hefur verið ráðinn í hans stað. Stjórnarformaðurinn Karl-Heinz Rummenigge vill þó halda Heynckes innan raða félagsins.
„Jupp Heynckes hefur staðið sig frábærlega hér. Hann er einn af bestu þjálfurum Evrópu," sagði Rummenigge. „Við höfum boðið honum að vera hluti af félaginu í framtíðinni. Við viljum vera með hæfa ráðgjafa við störf."
„Þetta kom mér á óvart," sagði Heynckes um ummælin. „Það hefði verið betra ef þeir hefðu haft samband við mig fyrst. Það sem meira er þá heyri ég fyrst um þetta í fjölmiðlum."
Óvíst er hvað tekur við hjá Heynckes í sumar en hann hefur verið orðaður við Schalke. „Fyrir nokkrum árum bauð Börussia Mönchengladbach mér stöðu varaforseta félagsins. Ég hafnaði því því eftir 50 ár sem leikmaður og þjálfari vil ég ekki taka að mér skrifstofustarf."
Fótbolti