Menning

Þorkell Sigurbjörnsson heiðraður á tónleikum

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Sigurjón Bergþór Daðason, Þórunn Harðardóttir og Eva Þyri Hilmarsdóttir koma fram á tónleikunum í hádeginu í dag.
Sigurjón Bergþór Daðason, Þórunn Harðardóttir og Eva Þyri Hilmarsdóttir koma fram á tónleikunum í hádeginu í dag.
„Þetta eru kaflar úr þremur verkum eftir Þorkel Sigurbjörnsson,“ segir Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari sem mun í hádeginu í dag leika á Háskólatónleikum ásamt þeim Sigurjóni Bergþóri Daðasyni klarínettuleikara og Þórunni Harðardóttur víóluleikara. „Kaflar úr þjóðlögunum hans fyrir klarínettu og píanó, svo kaflar úr þjóðlögum fyrir víólu og píanó og að lokum sirka helmingur af tríói hans sem heitir Kisum. Úr því völdum við þá kafla sem einnig innihalda þjóðlög þannig að þjóðlögin eru nokkurs konar þema tónleikanna.“

Ástæða þess að ákveðið var að helga Þorkeli þessa tónleika er að hann hefði orðið 75 ára á árinu, en hann lést fyrr á þessu ári.

Þau Eva Þyri, Sigurjón og Þórunn hafa haldið nokkra tónleika saman en ekki fyrr tekist á við verk Þorkels. „Það sem við höfum gert áður eru þessi hefðbundnu verk fyrir þessa samsetningu hljóðfæra, en það er ekkert voðalega mikið til af þannig verkum, þannig að við förum bráðum að verða búin með þau öll, en okkur langar til að flytja Kisum í heild einhvern tíma og erum að leita að vettvangi til að gera þann draum að veruleika,“ segir Eva Þyri.

Tónleikarnir eru liður í Háskólatónleikum Háskóla Íslands, fara fram í hátíðasalnum í aðalbyggingunni og hefjast klukkan 12.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×