Menning

Tobba Marinós ritar sjálfsævisögu sína

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Þorbjört Marinósdóttir. Mynd/Anton
Þorbjört Marinósdóttir. Mynd/Anton
"Bókin byrjar á því þegar ég eignaðist fyrsta kærasta minn í leikskóla með því að drekka úr drullupolli," segir Þorbjörg Marinósdóttir, rithöfundur og forstöðumaður markaðssviðs Skjásins, en hún hefur hafið skriftir á sinni fjórðu bók.

Bókin verður sjálfsævisaga Tobbu. Hún segist lengi hafa verið með fjórðu bókina í maganum, en hafi verið í hálfgerðri sálarkrísu yfir því hvaða stefnu hún ætti að taka. Tobba ákvað að hvíla Lilju, söguhetju fyrri bóka hennar Makalaus og Lýtalaus.

"Ég hef verið að velta þessu fyrir mér með fjórðu bókina og um hvað hún ætti að vera. Ég var jafnvel að spá í að gera eitthvað allt annað, skrifa alvarlegra verk og freista þess að verða ekki hent á rafmagnsgirðinguna af gagnrýnendum. Svo ákvað ég bara að halda áfram að gera lífið skemmtilegra og flippa smá," segir Tobba og bætir við að flestum veiti ekki af að láta lyfta sér upp í hversdagslífinu.

Af nógu skemmtilegu er að taka í lífi Tobbu, sem segist hafa upplifað ýmislegt klikkað á ævinni sem vert sé að gera skil. Hún er hvorki búin að ákveða hversu nákvæmar lýsingarnar í bókinni verða né hvort öll rétt nöfn fái að halda sér.

"Ég var orðin leið á að skrifa um aðra. Þetta verður sjálfsævisaga en ég ætla að taka mér skáldaleyfi á köflum. Söguþráðurinn er byggður á minni ævi og fjölskyldu minnar. Ég á ekki langt að sækja flippið frá skrautlegum einstaklingum innan fjölskyldunnar sem ég vona að ég móðgi ekki með skrifunum. Ég lofa því að bókin verður skrifuð í sátt og samlyndi við fjölskyldumeðlimi."

Tobba stefnir á að senda bókina frá sér í byrjun sumars og fara því kvöldin hjá henni í skriftir þessa dagana. "Mig langar til að gefa bókina út í tæka tíð fyrir sumarfríin. Ég er hrifin af því að búa til ódýrar bækur í kiljuformi sem passa í handtöskuna. Ég hef enga þörf fyrir að henda mér í jólabókaflóðið. Svo sjáum við bara til hvort ég nái að klára þetta fyrir sumarið eða ekki."

Skutluskáldskapur
Makalaus og Lýtalaus.
Fyrsta bók Tobbu, Makalaus, kom út árið 2010. Hún vakti athygli og seldist í um fjögur þúsund eintökum.

Sama ár gaf hún út bókina Dömusiðir sem var eins konar leiðarvísir kvenna á öllum aldri um hvernig vera skal sönn dama.

Árið 2011 var gerð sjónvarpssería upp úr Makalausri þar sem Lilja Katrín Gunnarsdóttir lék aðalhlutverkið. Þættirnir voru sýndir á Skjá Einum.

Þriðja bókin, Lýtalaus, leit dagsins ljós árið 2011 og var sjálfstætt framhald af Makalausri. Hún seldist einnig í hátt í fjögur þúsund eintökum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×