„Ég heyri að tyrknesk lið hafa áhuga en ég veit voðalega lítið,“ segir Gunnar Heiðar Þorvaldsson hjá Norrköping. Sænskir fjölmiðlar fjalla um áhuga tyrkneska félagsins á framherjanum sem hefur skorað grimmt í Svíþjóð.
„Þeir þurfa að ná samkomulagi við Norrköping. Það er ekki komið að mínum hluta í þessu,“ segir Gunnar Heiðar. Hann segir þó hlutina geta gerst hratt.
„Áður en maður veit af er maður kannski fluttur þangað,“ segir Gunnar Heiðar sem er uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann segist ekki vera búinn að setja sig í samband við Grétar Rafn Steinsson, sem leikur með tyrkneska félaginu Kayserispor.
„Ekki enn þá,“ segir Gunnar Heiðar og hlær.
Krister Eriksson, yfirmaður íþróttamála hjá Norrköping, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að viðræður hefðu verið í gangi. Hann vildi ekki tjá sig nánar um málið.

